Keppnin Arctic Challenge var haldin í Verkmenntaskólanum á Akureyri þann 2. mars síðastliðinn. Keppnin hefur verið haldin frá árinu 2022. Að þessu sinni var keppt í matreiðslu, kokteilagerð og kjötiðna en þetta er í fyrsta sinn sem kjötiðn er á meðal þátttökugreina.
Um þetta er fjallað á vef Iðunnar fræðsluseturs. Þar segir Árni Þór Árnason frá tilurð samtakanna Arctic Challenge, sem stofnuð voru fyrir norðan árið 2021 með það að markmiði að efla uppbyggingu, fræðslu og ástríðu í matvæla -og veitingagreinum á Norður og Austurlandi. Matreiðslumennirnir Árni Þór Árnason og Alexander Magnússon stofnuðu samtökin í miðjum heimsfaraldri með það að markmiði að sameina bransann á erfiðum tíma sem einkenndist af lokunum og tekjutapi vegna fjöldatakmarkana.
Leikar fóru þannig að Davíð Clausen Pétursson varð hlutskarpastur í kjötiðn, Sindri Freyr Ingvarsson í matreiðslu og Thelma María Heiðarsdóttir í kokteilagerð en nánari úrslit um umfjöllun um keppnina má sjá hér.