Reglugerð
 fyrir sjúkrasjóð MATVÍS

 

 I. Almennt um sjóðinn, verkefni hans og rekstur.

1. gr. Nafn sjóðsins og heimili

1.1       Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður, Matvæla- og veitingafélags Íslands skammstafað Sjúkrasjóður MATVÍS.

1.3       Sjúkrasjóður MATVÍS er eign MATVÍS. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Verkefni

2.1       Verkefni sjóðsins er að veita sjóðsfélögum Sjúkrasjóðs MATVÍS  fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa- og dánartilvikum eins og mælt er fyrir í reglugerð þessari.

2.2       Verkefni sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum sem snerta öryggi og heilsufar.

3. gr.  Tekjur

3.1       Tekjur sjóðsins eru samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins.

3.2       Vaxtatekjur og annar arður.

3.3       Gjafir, framlög og styrkir.

3.4       Aðrar tekjur sem aðalfundur sjóðsins kann að ákveða hverju sinni.

4. gr. Stjórn og rekstur

4.1       Stjórn sjóðsins skal kosin með sama hætti og stjórn MATVÍS og ber stjórnin ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins.

4.2       Stjórnun sjóðsins skal vera í samræmi við þau sjónarmið sem gilda skv. almennum stjórnsýslureglum.

4.3       Heimilt er að fela skrifstofu MATVÍS fjárreiður og umsjón með sjóðnum.  

4.4       Heimilt er að stofna til samstarfs við önnur félög um rekstur sjúkrasjóðs og gera þjónustusamning við viðurkennda aðila um hluta verkefna hans eða heildarrekstur hans.

4.5       Stjórn sjóðsins setur nánari starfsreglur á grundvelli reglugerðar þessarar.

5. gr.  Reikningar og endurskoðun

5.1       Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.

5.2       Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af félagslegum endurskoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund sjóðsins.

6. gr. Úttekt óháðra eftirlitsaðila

6.1       Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína.

6.2       Við mat á framtíðarstöðu sjóðsins skal tilgreina rekstrarkostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

6.3       Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. niðurstöðu úttektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir aðalfund tillögu að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

7. gr. Ávöxtun

7.1        Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti;

a)         í ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkis­sjóðs,

b)         með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum,

c)         í bönkum eða sparisjóðum,

d)         í fasteignum tengdum starfsemi sjóðsins,

e)         á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan sbr. 11. gr.  viðmiðunarreglna um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda eins og þær eru á hverjum tíma sbr. 41.gr. laga ASÍ.

II. Sjóðfélagar og grundvöllur styrkveitinga.

8. gr. Sjóðfélagar

8.1       Sjóðfélagar eru þeir félagsmenn MATVÍS sem greitt hafa eða fyrir þá hafa verið greidd iðgjöld til sjóðsins. Virkir sjóðfélagar teljast þeir sem eru greiðendur í sjóðinn á hverjum tíma.

9. gr.  Grundvöllur styrkveitinga

9.1      Rétt til  greiðslu sjúkradagpeninga eiga þeir sjóðfélagar sem sannanlega hafa greitt eða hefur verið greitt af til sjóðsins í samræmi við kjarasamninga a.m.k. í 6 mánuði og verið er að greiða til sjóðsins þegar réttur til styrks myndast. Sama gildir um félagsmenn sem ekki falla undir kjarasamninga og greiða a.m.k. 1% af launum til sjóðsins.

9.2    Réttur til annarra styrkja úr sjúkrasjóði sbr gr. 16.1, eiga þeir sjóðsfélagar sem sannarlega hafa greitt eða hefur verið greitt af til sjóðsins í samræmi við kjarasamninga a.m.k. í 12 mánuði og verið er að greiða til sjóðsins þegar réttur til styrks myndast. Sama gildir um félagsmenn sem ekki falla undir kjarasamninga og greiða a.m.k. 1% af launum til sjóðsins. Þó myndast réttur til styrkveitinga vegna kostnaðar við sjúkraþjálfun/sjúkranudd og sálfræðiaðstoð við 6 mánaða aðild að sjóðnum.

9.3       Þeir sjóðsfélagar sem greiða til sjóðsins af launum undir lágmarkstaxta MATVÍS skulu fá greidda styrki úr sjóðnum í hlutfalli við iðgjöld miðuð út frá kauptaxta MATVÍS. Nemar í matvælagreinum eru þó undanþegnir þessari grein.

9.4       Einnig eiga rétt til greiðslu sjúkradagpeninga þeir sjóðfélagar sem greitt hafa iðgjald í a.m.k. einn mánuð til sjóðsins hafi þeir greitt iðgjald í a.m.k. 6 mánuði á undangengnum 12 mánuðum til sjúkrasjóðs annars aðildarfélags innan ASÍ er þeir byrja greiðslu til sjóðsins.  Við ákvörðun styrkveitingar skal taka tillit til þess hvort  sjóðfélagi hafi nýtt rétt sinn að hluta eða öllu leyti hjá hinum fyrra sjóði.

9.5       Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á, að félagsgjöld til viðkomandi aðildarfélags hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd.

9.6       Heimilt er að veita þeim sem gengst undir starfsþjálfun, sækir námskeið eða stundar nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á samningssviði MATVÍS, endurnýjaðan rétt þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð, hafi viðkomandi áður verið fullgildur sjóðfélagi. Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna veikinda, slysa eða  atvinnuleysis eða af heimilisástæðum.

9.7       Þeir sjóðfélagar sem fara í lögbundið fæðingarorlof halda áunnum réttindum sínum hefji þeir þegar að loknu fæðingarorlofi aftur störf á samningssviði MATVÍS enda ákveði viðkomandi að viðhalda rétti sínum með greiðslu félagsgjalds í fæðingarorlofi.  

9.8       Vinni maður á fleiri en einum vinnustað og hafi verið greitt í fleiri en einn sjúkra­sjóð þegar sótt er um greiðslu, skal umsækjandi greina frá því í hvaða sjóði hann hefur greitt og er heimilt að fresta greiðslu bóta þangað til fyrir liggur staðfesting annarra sjóða á því að umsækjandi hafi ekki sótt um greiðslur þaðan. Sjúkra­sjóðurinn skal leita slíkrar staðfestingar og gefa síðan öðrum sjóðum yfirlit yfir þær bætur sem greiddar eru vegna umsækjandans, tegund og fjárhæð bóta

III. Styrkveitingar

10. gr.             Sjúkra- og slysadagpeningar vegna slyss eða veikinda sjóðfélaga

10.1     Sjóðurinn greiðir sjúkra- og slysadagpeninga ef launatekjur sjóðfélaga falla niður vegna veikinda eða slysa samkvæmt eftirfarandi reglum:

10.2     Dagpeningagreiðslur hefjast að loknum launagreiðslum samkvæmt veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga.  Ef sjóðfélagi er sjálfstætt starfandi hefjast dagpeningagreiðslur að liðnum þremur mánuðum frá upphafi óvinnufærni vegna slyss eða veikinda.

10.3     Dagpeningagreiðslur eftir atvikum lækka eða lýkur:

            10.3.1  þegar sjóðfélagi hefur störf að nýju

            10.3.2  við upphafsdag örorkulífeyris- eða eftirlaunagreiðslna úr lífeyrissjóði.

            10.3.3  þegar framkvæmdastjórn sjóðsins hafnar frekari bótagreiðslum, vegna:

            a) sjóðfélagi sinnir ekki endurhæfingu eða læknismeðhöndlun sem sjóðurinn eða læknir hans hefur lagt að honum að undirgangast.

            b) sjóðfélagi dregur án ástæðu eða neitar að undirgangast örorkumat.

            c) sjóðfélagi veitir sjóðnum ekki upplýsingar sem sjóðurinn telur nauðsynlegar vegna úrskurðar um framhald dagpeningagreiðslna.

            d) af öðrum málefnalegum ástæðum.

10.4     Dagpeningar eru eftirfarandi:

10.4.1  Fyrsta bótatímabil er að hámarki 120 dagar. Dagpeningar eru þann tíma 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 12 mánuðum, sbr. þó 14.gr. 

10.4.2  Heildar dagpeningatímabil getur aldrei orðið lengra en nemur þeim tíma sem sjóðfélagi hefur átt aðild að sjóðnum.

 

10.5          Bætur almannatrygginga skerða ekki dagpeningagreiðslur sjóðsins skv. gr. 10.4.1 og 10.4.2

 

10.6      Dagpeningar greiðast ekki vegna atvinnusjúkdóma og bótaskyldra slysa, þ.m.t. bifreiðaslysa, þar sem bætur greiðast skv. skaðabótalögum eða launþegatryggingu.

 

10.7     Réttur skv. 10.4.1 og 10.4.2 endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum lýkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.

11.gr. Dagpeningagreiðslur til sjóðfélaga vegna veikinda maka

11.1          Sjóðurinn greiðir dagpeninga í allt að 90 daga að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Fjárhæðir fara eftir ákvæðum gr. 10.4.1.

12.gr. Dagpeningagreiðslur til sjóðfélaga vegna veikinda barna

12.1     Sjóðurinn greiðir dagpeninga í allt að 90  daga, að loknum kjarasamnings-bundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.   Fjárhæðir fara eftir ákvæðum gr. 10.4.1.   

13. gr. Ferðakostnaður

13.1     Til að jafna aðstöðu þeirra sem búa á landsbyggðinni tekur sjúkrasjóður þátt í ferðakostnaði þeirra sem þurfa að fara landshluta á milli til aðgerða eða rannsókna að læknisráði.  Sækja verður þó um styrk hjá TR. 

13.2     Heimilt er sjóðnum að taka þátt í kostnaði sjóðfélaga vegna sjúkrahúsdvalar eða læknisaðgerðar fjölskyldumeðlims, sem sækja verður út fyrir heimabyggð og Tryggingarstofnun ríkisins greiðir ekki.

 

14. gr. Hámark dagpeningagreiðslna.

14.1     Hámarkdagpeningagreiðslna er kr.445.558 á mánuði.  (sjá þó gr.20.1)

14.2     Dagpeningagreiðslur skv. gr. 10.4.1, 10.4.2, 11, 12 og 15.3 verða aldrei hærri en sem nemur launamissi. Í öllum tilvikum teljast með aðrar bætur sem sjóðfélagi kann að fá frá almannatryggingum, lífeyrissjóðum eða samningsbundnum tryggingum.  

15.gr. Eingreiddar dánarbætur

15.1     Greiða eingreiddar dánarbætur kr. 520.000 enda hafi viðkomandi verið sjóðfélagi i a.m. 6 mánuði þegar dauða hans bar að höndum eða þrjú ár eftir starfslok sökum aldurs eða örorku eftir 10 ára félagsaðild fyrir starfslok.

15.2     Greiða eingreiddar dánarbætur kr. 390.000 sé félagsmaður 70 ára eða eldri þegar andlát hans ber að, enda hafi viðkomandi verið félagsmaður s.l. 10 ár fyrir starfslok.

15.3     Greiða eingreiddar dánarbætur kr. 180.000 sé félagsmaður 75 ára eða eldri þegar andlát hans ber að, enda hafi viðkomandi verið félagsmaður s.l. 10 ár fyrir starfslok.

15.4     Greiða eingreiddar dánarbætur kr. 100.000 sé félagsmaður 80 ára eða eldri þegar andlát hans ber að, enda hafi viðkomandi verið félagsmaður s.l. 10 ár fyrir starfslok.

15.5     Vegna andláts greiðandi sjóðsfélaga greiðast dánarbætur sem eru 80% af meðaltali heildarlaun síðustu þriggja starfsmánaða fyrir andlát.

15.6     Dánarbætur greiðast ekki ef dánarbætur eru greiddar úr slysatryggingu launþega eða skv. skaðabótalögum.

 

16.gr. Styrkir til sjóðfélaga, stofnana og félagasamtaka

16.1     Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðfélaga í formi forvarnar- og endur­hæfingarstyrkja og styrkja vegna sjúkra- og slysakostnaðar. Þeirra skal getið í starfsreglum sjóðsins.

16.2     Upphæð styrkja skal vísitölutryggð og fylgja vísitölu neysluverðs.

16.3     Styrkir til stofnana, félagasamtaka skulu ákveðnir af stjórn sjóðsins hverju sinni.

16.4     Þurfi sjóðurinn að bregðast við versnandi afkomu með breytingu á greiðslum styrkja skal stjórnin gera fyrst tillögur um lækkun styrkja skv. þessari grein.

IV.   Önnur ákvæði

17.gr.  Tilhögun greiðslna ofl

17.1     Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um fyrirkomulag á greiðslu styrkja og aðra starfstilhögun.

17.2     Umsóknum skal skilað á því formi sem stjórn sjóðsins ákveður og þeim fylgi nauðsynleg vottorð sem tryggja réttmæti greiðslna.

17.3     Iðgjöld til sjóðsins endurgreiðast ekki.

18. gr. Heimild til kaupa á hóptryggingu

18.1     Sjóðnum er heimilt að standa að kaupum á hóptryggingu fyrir sjóðfélaga til uppfyllingar á ákvæðum reglugerðar þessarar.

19.gr.  Fyrning bótaréttar

19.1     Réttur til styrkja skv. reglugerð þessari fellur niður sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því rétturinn stofnaðist.

20. gr. Vísitölutenging fjárhæða.

20.1     Fjárhæðir skv. gr. 14.1 og gr. 15. breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.  

20.2     Viðmiðunarlaun skal reikna upp með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar áður en greiðslur eru ákveðnar og á 6 mánaða fresti eftir það.

21. gr. Lausn frá greiðsluskyldu

21.1     Ef farsóttir geisa getur sjóðsstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðsstjórn ákveðið að lækka upphæð dagpeninga tímabundið ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

22. gr. Breytingar á reglugerð

22.1     Breytingar á reglugerðinni verða aðeins gerðar á aðalfundi og þurfa þær að vera samþykktar með 2/3 hluta greiddra atkvæða fundarins. Slíkrar tillögu skal getið í fundarboði.

 

Þannig samþykkt á ársfundi MATVÍS 17. maí,  2006.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi MATVÍS þann 14. apríl 2007.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi MATVÍS þann 23. apríl 2008.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi MATVÍS þann 23. mars 2011.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi MATVÍS þann 21. mars 2012.

Þannig samþykkt á aðalfundi MATVÍS þann 12. mars 2013

Þannig staðfest af ASÍ  þann 27. 05 2013