Yfirlýsing frá MATVÍS

MATVÍS vill árétta eftirfarandi vegna fréttaflutnings fjölmiðla

MATVÍS viðhefur venjubundna starfshætti í því máli sem fjölmiðlar hafa fjallað um en félagið fær tugi mála inn á sitt borð í hverjum mánuði. Oftast leysast slík mál sem betur fer fljótt og örugglega. Í umræddu máli óskaði félagsmaður MATVÍS eftir hjálp stéttarfélagsins þar sem hann taldi sig vera hlunnfarinn. Starfsfólk MATVÍS fór í eftirlitsferð á vinnustað félagsmannsins ásamt lögreglu og kom þá í ljós að fleiri félagsmenn voru í sömu stöðu. Fyrir liggur að það reyndist rétt að starfsmenn höfðu verið hlunnfarnir enda hafa atvinnurekendurnir viðurkennt það en sagt að um mistök væri að ræða. Atbeini MATVÍS þurfti hins vegar til að atvinnurekendinn brygðist við. Enn hefur atvinnurekandinn ekki gert upp að fullu.

MATVÍS vonaðist eftir að málið kláraðist í samtali á milli aðila en því miður höfnuðu atvinnurekendurnir lögfræðingi MATVÍS um að greiða fólkinu það sem félagið telur þau eiga inni.

Málið fer því fyrir dómstóla. MATVÍS hræðist ekki hótanir um lögsókn en telur þó að þeim peningum sem eytt verður í þá málsókn myndu nýtast betur til þess að greiða fyrrum starfsmönnum veitingastaðanna það sem þau eiga inni. Þannig væri ágreiningurinn einnig afgreiddur. Yfirlýsing atvinnurekendanna úr fjölmiðlum þann 1. nóvember sl. um að vilji þeirra hafi ávallt staðið til þess að standa skil á sínu gagnvart skjólstæðingum MATVÍS er því ekki trúverðug þar sem ágreiningurinn nú snýst einmitt um það að ekki hefur verið gert upp við skjólstæðinga okkar að fullu.

MATVÍS mun að öðru leyti ekki tjá sig um fyrirhugaða málshöfðun eigenda veitingastaðana á hendur félaginu.