Mirabela Aurelia Blaga hefur hafið störf í Húsi fagfélaganna. Hún mun sinna vinnustaðaeftirliti sem Hús fagfélaganna stendur fyrir í samstarfi við Eflingu. Hlutverk vinnustaðaeftirlits er að ganga úr skugga um að aðstæður á vinnustöðum séu í samræmi við lög og reglur og koma þannig í veg fyrir brotastarfsemi á félagssvæðum stéttarfélaganna. Þetta verður gert með heimsóknum á vinnustaði, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Áhersla verður fyrst um sinn lögð á að fylgjast með fyrirtækjum í byggingaiðnaði, matvælaiðnaði og ferðaþjónustu. Í heimsóknunum verður meðal annars kannað hvort starfsfólk hafi réttindi til að sinna þeim störfum sem því hefur verið falið auk þess sem starfsfólk verður frætt um réttindi sín og skyldur.
Mirabela er lögfræðingur að mennt og býr að mikilli reynslu af íslenskum vinnumarkaði. Hún hefur undanfarin þrjú ár starfað sem sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun í atvinnumálum fólks af erlendum uppruna en þar áður sem landamæravörður hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Mirabela er frá Rúmeníu en hefur búið á Íslandi frá árinu 2006.