Fjöldatakmarkanir á veitingastöðum taka breytingum í nýjum reglum heilbrigðisráðherra, sem kynntar voru í hádeginu í dag og taka gildi 10. desember. Veitingastöðum verður heimilt að taka á móti 15 gestum í einu og þeim verður einnig heimilt að lengja opnunartímann til 22 á kvöldin.
RÚV hefur eftir Braga Skaftasyni, veitingamanni á Tíu sopum í Reykjavík, að breytingarnar hafi ekki mikil áhrif.
„Desembervertíðinni hefur þannig séð verið aflýst. Eins og hún hefur verið venjulega. Við þiggjum með þökkum alla þá viðskiptavini sem koma núna og sem betur fer erum við hérna á Laugaveginum með göngugötuna. Undanfarna daga hefur rennslið verið frábært. En við getum svo sem ekki tekið við mörgum og það er kannski ekki að bætast mikið við núna. Fimmtán úr tíu er svo sem stökk en þegar við horfum á stóru myndina þá er þetta ekki mikill munur,“ segir Bragi.
Reglurnar gilda til 12. janúar.