Vinnueftirlitið fjallar um það á vefsíðu sinni að á vinnustöðum sé oft að finna ýmis varasöm efni sem séu í lítilli notkun. Þar megi til dæmis nefna ætandi efni í ræstingaherbergjum, svo sem stíflueyði. Oft dagi þessi efni uppi, lítið eða ekkert notuð, jafnvel árum saman.

 

Eftirlitið varar við því að töluverð hætta geti skapast af þessum efnum, séu þau geymd í plasti. Mörg efni í plastbrúsum eða -ílátum skemmi plastið smám saman. Plastið verði stökkt með tímanum og brotni þá við minnsta hnjask. Ekki sé mælt með því að geyma efni í plastumbúðum í lengur en fimm ár.

 

„Því miður hafa orðið slys þar sem umbúðir hafa gefið sig með þeim afleiðingum að starfsfólk hefur fengið yfir sig ætandi efni og slasast alvarlega. Ætandi efni geta valdið alvarlegum ætisárum á húð og varanlegum augnskaða, jafnvel blindu, ef þau berast í augu,“ segir á vefnum.

 

Vinnueftirlitið hvetur alla vinnustaði til að yfirfara geymslur, ræstiherbergi eða önnur rými þar sem hættumerkt efni eru geymd með reglubundnum hætti.

 

Þetta á ekki síst við eldhús, bakarí og kjötvinnslur, þar sem öflug hreinsiefni geta verið til staðar.

 

Vinnueftirlitið tekur fram að ekki megi hella efnunum í niðurföll eða henda í ruslatunnur. Fara þarf með þau á viðurkenndar móttökustöðvar spilliefna. Gott sé að leita ráðgjafar um hvernig best sé að bera sig að.

 

Fram er tekið að hættumerkt efnis séu merkt með rauðum tígli. Í tíglinum sé mynd sem gefi hættuna til kynna.

 

„Vinnueftirlitið vill jafnframt minna á þá gullnu reglu að nota aldrei hættulegri efni en ástæða er til. Það er, ef hægt er að ná sama árangri með hættulausum eða hættuminni efnum á alltaf að velja þau síðarnefndu. Ef nota þarf hættumerkt efni ætti alltaf að nota viðeigandi persónuhlífar svo sem hlífðarhanska og hlífðargleraugu.“

 

Hér eru upplýsingar um hættuleg efni á vinnustöðum.