Ungt jafnaðarfólk heimsótti Fagfélögin í vísindaferð föstudaginn 12. apríl síðastliðinn. UJ hafði áhuga að kynnast starfi Fagfélaganna og læra um þau félög sem standa að samstarfinu á Stórhöfða.
Fagfélögin tóku vel á móti hópnum en Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM og Jón Bjarni Jónsson, formaður Byggiðnar, héldu hver um sig stutta tölu um sín félög. Formaður MATVÍS átti ekki kost á því að vera viðstaddur, að þessu sinni.
Upp úr þeim erindum sköpuðust afar líflegar umræður um iðngreinar og þær áskoranir sem þessar greinar standa frammi fyrir. Menntamál voru rædd í þaula, húsnæðismál og mikilvægi þess að fólk með starfsréttindi vinni iðnaðarstörf, svo fátt eitt sé nefnt. Samtalið stóð yfir í ríflega tvo tíma.
Ungt jafnaðarfólk er nafn ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar en hreyfingin var stofnuð 11. mars 2000.
Fagfélögin þakka UJ kærlega fyrir komuna.