Þrjú námskeið sem ekki hafa verið kennd áður eru á dagskrá á sviði matvæla- og veitingagreina hjá Iðunni fræðslusetri á komandi vikum.
Þann 9. nóvember er námskeið á dagskrá sem heitir Sjálfbær nýting í eldhúsum. Námskeiðið er fyrir matreiðslumenn en á því er fjallað um nýtingu hráefnis í nærumhverfi, um hráefnisöflun, gerjun á hliðarafurðum og leiðir til að minnka sóun mætvæla.
Þann 23. nóvember er námskeiðið Matarspor – kolefnisspor máltíða á dagskrá. Matarspor er hugbúnaður sem birtir kolefnisspor máltíða með myndrænum hætti og auðveldar þannig notendum að taka upplýsta ákvörðun um eigin neyslu. Á námskeiðinu verður farið ítarlega yfir hugbúnaðinn og vinna svo nemendur stutt verkefni í lokin.
Síðast en ekki síst skal nefna námskeiðið Hátíðarpaté og grafið kjöt. Á námskeiðinu eru kennd undirstöðuatriði við bæði patégerð og að grafa kjöt. Farið er yfir helstu þætti sem snúa að framleiðslunni, t.d. val og snyrting hráefna, val á kryddum og vinnsluaðferða. Námskeiðið er kennt 9. desember.