Þingi ASÍ hefur verið frestað til vorsins. Tillaga þess efnis var samþykkt í dag með 183 atkvæðum þingfulltrúa gegn 20.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, verður áfram forseti sambandsins. Ólöf Helga Adolfsdóttir, sem hafði boðið sig fram til forseta, greiddi atkvæði gegn tillögunni.
Finnbjörn Hermannsson, formaður Byggiðnar, var fyrsti flutningsmaður tillögunnar en umræður um hana stóðu yfir í um hálftíma.
Til tíðinda dró á þinginu í gær þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Ragnar Þór Jónsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, drógu framboð sín til forystu í sambandinu til baka og gengu út af þinginu, ásamt stórum hópi þingfulltrúa.