Þingi ASÍ fram haldið í vikunni

Fertugasta og fimmta þingi ASÍ verður framhaldið í vikunni. Það fer fram 27.-28. apríl; fimmtudag og föstudag. Þinginu, sem fer fram á Grand Hótel í Reykjavík, var frestað 14. október síðastliðinn eftir miklar deilur.

Á þinginu verður framtíð vinnumarkaðarins tekin fyrir, jafnrétti og menntun, kjaramál, lífeyrismál og húsnæðismál, svo fátt eitt sé nefnt. Dagskrá þingsins í heild má sjá hér.

Ljóst er að ný forysta ASÍ verður kjörin á þinginu en Kristján Þórður Snæbjarnarson gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Finnbjörn A. Hermannsson hefur lýst yfir framboði til forseta. Hann er úr röðum iðnaðarmanna og lét af störfum sem formaður Byggiðnar – félags byggingamanna um mánaðamótin.

Í tilkynningu sem Finnbjörn sendi fjölmiðlum, þegar hann tilkynnti um framboð sitt í liðinni viku, segir hann meðal annars: „Ég bý að ára­tugareynslu af marg­vís­leg­um trúnaðar­störf­um inn­an verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar og hef ætíð verið talsmaður sam­vinnu og sátta. Ég vil leggja mín lóð á voga­skál­ar þess að verka­lýðshreyf­ing­in rísi und­ir ábyrgð sinni á erfiðum tím­um, og standi vörð um kjör vinn­andi fólks og sæki fram fyr­ir bætt­um lífs­kjör­um okk­ar allra. Með því að stilla sam­an strengi í gegn­um sterk og öfl­ug heild­ar­sam­tök get­ur verka­lýðshreyf­ing­in knúið á um raun­veru­leg­ar kjara­bæt­ur sem halda til fram­búðar.“