„Fólk gengur oft allt of langt í streitu áður en það fattar hvað er í gangi.“ Þetta segir Hugrún Linda Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi, markþjálfi og núvitundarkennari hjá fræðslu- og heilsusetrinu Heillandi hugur. Hugrún kennir þann 13. nóvember námskeið sem IÐAN fræðslusetur býður starfsfólki í matvæla- og veitingagreinum upp á. Yfirskrift námskeiðsins er „Slappaðu af“.
Á vef IÐUNNAR er bent á að hraði og streita sé algeng í matvæla- og veitingagreinum. Markmið námskeiðsins sé að huga að fornvörnum gegn kulnun, örmögnun og veikindum sem tengjast streitu og álagi ásamt fræðslu um tauga-, streitu- og slökunarkerfið.
Hugrún segir í samtali við MATVÍS að hún hafi lengi unnið með fólki, til dæmis á vegum VIRK, sem hafi glímt við mikla streitu og streitutengd veikindi. Hún segir að streita komi niður á andlegri og líkamlegri heilsu fólks. Markmið sé að hjálpa fólki að fyrirbyggja að veikjast og þurfa að fara í veikindaleyfi. „„Streitutengd veikindi eru oft svo lúmsk. Þetta læðist oft aftan að manni án þess að maður fatti það. Við viljum hvetja fólk til meðvitundar um þessi einkenni áður en það gengur of langt,“ segir hún og bætir við að oft sé það harðduglegt og samviskusamt fólk sem verði streitu að bráð. Fólk sem vilji standa sig vel.
Efla innri styrk
Kynntar verða á námskeiðinu leiðir til að vinna á móti streitutengdum einkennum og aðferðir til að efla innri styrk og seiglu en seigla er hæfileiki til að viðhalda heilbrigðu og stöðugu andlegu og líkamlegu ástandi. Kynntar verða gagnlegar æfingar og verkefni til að losa um streitu.
Í lok námskeiðs verður boðið upp á góða Jóga Nidra djúpslökun. Einnig fá þátttakendur upplýsingar með hagnýtum ráðleggingum og leiðum til að vinna áfram með streitustjórnun og til að efla vellíðan í lífi og starfi.
Þátttakendur fá enn fremur aðgang að Jóga Nidra rafrænum hugleiðsluaðferðum til að eiga eftir vinnustofuna.
Hugrún bendir á að fjölmargir líkamlegir kvillar eigi rætur sínar að rekja til streitu, svo sem meltingartruflanir og ýmsir verkir. „Rannsóknir hafa sýnt að á bilinu 60 til 90 prósent læknisheimsókna eru til komnar vegna kvilla sem eru tengdir streitukenndum sjúkdómum,“ segir hún.