Stelpur og verknám

Með Fréttablaðinu í dag kom út kynningarblað undir yfirskriftinni Stelpur og verknám. Í blaðinu er fjallað um og talað við konur sem hafa menntað sig og helgað sig iðngreinum.

Blaðið er uppfullt af áhugaverðum greinum og viðtölum og skartar glæsilegum fulltrúum ólíkra iðngreina. Þar er líka að finna grein þar sem rætt er við Margréti Halldóru Arnarsdóttur, formann Félags íslenskra rafvirkja og Lilju Sæm, formann Félags hársnyrtisveina um samstarf iðnfélagnna að Stórhöfða 31. „Ungar stelpur hafa gott af því að sjá fyrirmyndir í þessum greinum til að gera sér grein fyrir því að þetta er möguleg leið til starfsframa. Það er líka mikilvægt að fólk skilji að þetta eru bara venjulegar stelpur, eins ólíkar og þær eru margar, þú þarft ekki að vera nein stereótýpa til að læra iðngrein,“ er haft eftir þeim.

Í blaðinu er meðal annars rætt við Helgu Sigurbjörnsdóttur rafvirkja, sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Þar bendir hún á að með iðnnámi opnist ýmsir möguleikar, jafnt á vinnu sem og á frekara námi.

„Það er líka nóg af störfum í boði. Þetta er ekki eitthvað sem er að fara að deyja út eins og til dæmis margar færibandavinnur. Þetta er eitthvað sem við þurfum alltaf á að halda og það er bara að aukast ef eitthvað er.“

Hús fagfélaganna, er bakhjarl kynningarblaðsins.