Þrjú námskeið á sviði matvæla- og veitingagreina eru á dagskrá IÐUNNAR fræðsluseturs.
Fyrst ber að nefna námskeið fyrir matreiðslumenn sem heitir Sjálfbær nýting í eldhúsum. Á námskeiðinu er fjallað um nýtingu hráefnis í nærumhverfi, um hráefnisöflun, gerjun á hliðarafurðum og leiðir til að minnka sóun matvæla. Námskeiðið fer fram 9. nóvember og er þrjár klukkustundir að lengd.
Þann 23. nóvember fer fram námskeið sem heitir Matarspor – Kolefnisspor máltíða. Matarspor er hugbúnaður sem virkar þannig að skráðar eru uppskriftir ólíkra máltíða og hugbúnaðurinn stillir þá upp samanburði á kolefnisspori máltíðanna. Í Matarspori er hægt að setja inn upplýsingar um innflutning ef um er að ræða erlend matvæli. Kolefnissporið er síðan sett í samhengi við það hversu langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn af gróðurhúsalofttegundum. Námskeiðið er tvær klukkustundir að lengd.
Loks er á dagskrá IÐUNNAR námskeiðið Hátíðar paté og grafið kjöt
Á námskeiðinu eru kennd undirstöðuatriði við bæði patégerð og að grafa kjöt. Farið er yfir helstu þætti sem snúa að framleiðslunni, t.d. val og snyrting hráefna, val á kryddum og vinnsluaðferða. Námskeiðið fer fram 3. desember og er sjö tímar að lengd.