Sóttvarnalæknir skilar nýjum tillögum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skilað heilbrigðisráðherra tillögum um breytingar á samkomutakmörkunum innanlands. Nú er vika eftir af júní en samkvæmt afléttingaráætlun heilbrigðisráðuneytisins, sem kynnt var í apríl, gáfu stjórnvöld sér frest út júní til að aflétta öllum samkomutakmörkunum innanlands.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sagt að enn sé stefnt að því að aflétta öllum takmörkunum í lok mánaðar. Á meðal þeirra takmarkana sem enn eru í gildi eru hámark leyfilegs fjölda á samkomum, fjarlægðarreglur og skertir afgreiðslutímar á veitingastöðum.

Gert er ráð fyrir að tillögurnar verði ræddar á ríkisstjórnarfundi á morgun, föstudag.