Sjötíu og sex námssamningar í faraldrinum

Alls voru gerðir 76 námssamningar í matvæla- og veitingagreinum á COVID 19-tímabilinu. Þetta kemur fram í svari IÐUNNAR fræðsluseturs við fyrirspurn MATVÍS.

Gerðir voru 40 námssamningar í matreiðslu, 20 í framreiðslu, 11 í bakaraiðn og fimm í kjötiðn.

Í grein sem birtist í Fréttablaðinu 1. júní var rætt við hjónin Önnu Soffíu Ásgeirsdóttur og Kjartan Marinó Kjartansson, sem brautskráðust úr meistaraskólanum 27. maí síðastliðinn. Þetta mun hafa verið í fyrsta sinn í sögu skólans sem hjón eru brautskráð saman.

Í annars ágætu viðtali kom fram að aðeins einn námssamningur hafi verið gerður í COVID 19. „Það er ótrúlegt að frá apríl í fyrra fram í janúar í ár hafi í kokki, þjóni, bakara og kjötiðn aðeins verið skrifað undir einn nemasamning. Það getur haft slæmar afleiðingar fyrir skólann og fögin að missa út meira en heilan árgang úr námi,“ er haft eftir Kjartani. Hið rétta er að samningarnir voru 76.

MATVÍS óskar þeim hjónum til hamingju með áfangann.