Samninganefndir allra stéttarfélaga iðn- og tæknifólks hafa ákveðið að vísa kjaraviðræðum til ríkissáttasemjara en kjarasamningar hafa verið lausir síðan 1. nóvember sl.
Stéttarfélög iðn- og tæknifólks hafa síðustu vikur reynt að ná nýjum kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins en í dag kom endanlega í ljós að of langt er á milli viðsemjenda.
Samninganefnd iðn- og tæknifólks hefur lagt áherslu á að viðhalda kaupmætti sinna félagsmanna auk þess að leggja áherslu á fjölskyldu- og manneskjulegt starfsumhverfi t.d með því að taka annað skref í styttingu vinnuvikunnar þannig að vinnutímastytting henti öllu félagsfólki.
Félögin hafa lagt fram töluleg gögn sem sýna fram á mun lakari launaþróun iðnaðarmanna samanborið við aðra hópa á vinnumarkaði og mikilvægi þess að taxtar iðnaðarmanna hækki í takt við þann mismun.
Samninganefnd iðn- og tæknifólks hefur nálgast verkefnið með ábyrgum hætti og lagt sig fram við að hugsa í lausnum og hlusta á viðsemjendur. Við munum þó aldrei samþykkja þá skoðun sem virðist vera ríkjandi við samningaborðið að eingöngu launafólk eigi að viðhalda stöðuleika og halda niðri verðbólgu í íslensku samfélagi.
Stjórnvöld og sveitarfélög hafa boðað gjaldskrár- og skattahækkanir um næstu áramót, að undanförnu hafa dunið á launafólki hækkanir vegna vaxtahækkana Seðlabankans og á almennri neysluvöru.
Stéttarfélög iðnaðarmanna fara því fram með sanngjarna kröfu um að verja og auka kaupmátt til framtíðar. Það er réttlát krafa að iðn- og tæknifólk fái sanngjarna hlutdeild af þeirri verðmætasköpun sem þau leggja til íslensku hagkerfi.
Til upplýsinga:
Að samfloti iðn- og tæknifólks standa MATVÍS, Rafiðnaðarsamband Íslands vegna aðildarfélaga, Samiðn vegna aðildarfélaga og VM félag vélstjóra og málmiðnaðarmanna.