Rýmri reglur um veitingastaði frá 13. janúar

Áformaðar breytingar á sóttvarnareglum sem eiga að taka gildi 13. janúar voru kynntar í dag. Í tillögu sóttvarnalæknis, sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur talað fyrir, er svigrúm veitingastaða til að taka á móti gestum rýmkað lítillega.

Tillaga Þórólfs Guðnasonar kveður á um að veitingastaðir megi taka á móti 20 gestum að hámarki. Áður gerðu reglurnar ráð fyrir 15 gesta hámarki.

Veitingastaðir mega áfram hafa opið til klukkan 22 á kvöldin. „Heimilt verður að hleypa inn nýjum viðskiptavinum til klukkan 21 og heimilt að selja mat úr húsi til klukkan 23,“ segir í minnisblaðinu.

Fram er tekið að gæta þurfi að tveggja metra nálægðarmörkum og skylt að bera grímur þar sem því verði ekki komið við.

Gert er ráð fyrir að þessar reglur gildi að óbreyttu til 17. febrúar.