( Bréf eins og sent var til félagsmanna ).

Rafræn atkvæðagreiðsla stendur nú yfir um boðun verkfalls í kjölfar þess að viðræðum við Samtök atvinnulífsins um endurnýjun á kjarasamningi sem rann út þann 28. febrúar s.l. var slitið. Atkvæðagreiðslan er leynileg og tekur til þeirra félagsmanna MATVÍS sem taka laun samkvæmt kjarasamningi félagsins og Samtaka atvinnulífsins.

Verkfallið komi til framkvæmda sem hér segir
Frá miðnætti aðfaranótt 10. júní til miðnættis 16. júní og
ótímabundið frá miðnætti aðfaranótt 24. ágúst

Leiðbeiningar um þátttöku í rafrænni kosningu um boðun verkfalls:
>>Farið á heimasíðu MATVÍS ,www.matvis.is. Smellið þar á tengilinn Rafræn kosning
>>Við það opnast gluggi þar sem þú slærð inn kennitölu þína og síðan auðkennið hér að neðan.
>>Þá geturðu kosið um hvort þú samþykkir að efna til verkfalls eða hafnar því.

Þitt kenni er xxxxxx

Atkvæðagreiðslunni lýkur kl. 10 mánudaginn 1. júní nk. Úrslit verða birt á heimasíðu félagsins.
Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu geta kosið á skrifstofu félagsins.

Á bakhlið þessa bréfs er kynning á kröfugerð og nánari upplýsingar.
Með kveðju,
kjörstjórn MATVÍS

Kæri félagsmaður
Nú stendur yfir leynileg atkvæðagreiðsla í félögum iðnaðarmanna um hvort boða eigi
allsherjarverkfall í kjaradeilu félaganna við Samtök atvinnulífsins. Atkvæðagreiðslunni lýkur kl. 10 1. júní.
Þar er sú spurning lögð fyrir félagsmenn hvort þeir vilji að boðað verði allsherjarverkfall sem standi frá miðnætti aðfaranótt 10. júní til miðnættis að kvöldi 16. júní 2015 og til ótímabundins allsherjarverkfalls frá miðnætti aðfaranótt 24. ágúst 2015. Verkfall mun eingöngu koma til framkvæmda ef þörf krefur og ef kjarasamningar hafa ekki verið undirritaðir.

Félög iðnaðarmanna hafa gengið sameinuð til viðræðna við Samtök atvinnulífsins á þessu ári.
Helstu kröfur okkar eru:

• Almenn hækkun launa 20%

• Byrjunarlaun iðnaðarmanns með sveinspróf verði kr. 381.326 á mánuði

• Bil á milli taxta verði 3%

• Fara yfir hlutföll milli hópa í launatöflu og tengja launaflokka við hæfniþrep

• Orlofs og desemberuppbætur hækki. Verði hálf mánaðarlaun viðkomandi

• Aðfangadagur og gamlársdagur verði frídagar launafólks hjá þeim sem ekki hafa það nú þegar

• Nýir kjarasamningar gildi frá 1. mars 2015
Þetta eru sanngjarnar kröfur og í samræmi við raunverulega stöðu mála í atvinnulífinu og samfélaginu. Þrátt fyrir það ber mikið í milli í viðræðum okkar við Samtök atvinnulífsins. Það er einróma niðurstaða viðræðunefndar iðnaðarmannafélaganna að tilgangslaust sé að halda viðræðum áfram. Til að koma hreyfingu á málin og fylgja kröfum okkar eftir sé nauðsynlegt að afla heimildar félagsmanna til að boða verkfall.
Við hvetjum félagsmenn eindregið til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og sýna hug sinn í verki. Góð þátttaka og góð samstaða sendir mikilvæg skilaboð að samningaborðinu. Við viljum að íslenskur vinnumarkaður verði samkeppnishæfur við Norðurlöndin og að fólk geti lifað mannsæmandi fjölskyldulífi af dagvinnulaunum. Með því að nýta samtakamáttinn getum við náð markmiðum okkar og fengið sanngjarnar kjarabætur.
Tökum öll þátt í atkvæðagreiðslunni!
Með félagskveðju f.h. MATVÍS Níels Sigurður Olgeirsson