Nátturuöflin hafa enn og aftur minnt okkur rækilega á hversu smá við erum. Þrátt fyrir að eldgosinu norðan Sundhnúks sé lokið vofir óvissan enn yfir Grindvíkingum. Það var ánægjulegt að sjá að þeim býðst að halda jólin heima. Mestu máli skiptir auðvitað að öryggi fólks sé tryggt.
Árið sem er að líða hefur, auk eldsumbrota, einkennst af stríðsátökum í Evrópu og Miðausturlöndum, sem ekki sér fyrir endann á. Þessar ytri aðstæður hafa kynnt undir verðbólgubálið. En fleira hefur komið til. Stórum fyrirtækjum hefur ekki borið gæfa til að halda aftur af verðhækkunum og hinu opinbera ekki heldur. Fyrir vikið liggur verðbólgan eins og mara á okkur öllum. Það er tími til kominn að fyrirtækjaeigendur og hið opinbera axli ábyrgð á ástandinu.
Kjarasamningurinn sem samþykktur var fyrir ári síðan rennur sitt skeið í upphafi næsta árs. Hann gildir til 1. febrúar 2024. Vonir okkar stóðu í fyrra til þess að sú óvissa sem þá var upp í efnahagsmálum yrði að baki í lok þessa árs – því var ákveðið að semja til skamms tíma. Því miður hafa þær væntingar ekki gengið eftir.
Í mínum huga er alveg ljóst að nálgast þarf kjarasamninga nú með hliðsjón af efnahagsumhverfinu. Launahækkanir án rauðra strika skila okkur engu, eins og sakir standa. Verðbólgan brennir þær jafnharðan upp. Það hefur heldur ekkert upp á sig að skella ábyrgðinni enn einu sinni á launafólk. Ríkið, sveitarfélögin og Samtök atvinnulífsins – allir þessir hópar þurfa að leggjast á eitt við að ná verðbólgunni niður, ef það á að takast. Þrjú af félögunum fjórum í Húsi fagfélaganna (MATVÍS, RSÍ og VM) hafa myndað traust bandalag fyrir komandi kjaraviðræður. Í því samstarfi felst mikill styrkur. Við þurfum að ganga sameinuð til þessara viðræðna og knýja á um sanngjarnar kjarabætur.
Raðir iðnaðarmanna þéttar
Fagfélögin á Stórhöfða 29-31, þau þrjú sem hér að ofan eru nefnd, auk Byggiðnar, hafa enn eflt samstarf sitt á liðnu ári. Ekki aðeins eykst slagkraftur félaganna út á við, þegar þau vinna saman, heldur er hægt að þjónusta félagsfólk betur en áður og þvert á félög. Ýmsar tækninýjungar hafa gert þjónustuna skilvirkari og betri. Sameiginlegur mannauður þessara félaga er mikill og í húsinu býr gífurleg reynsla. Í samstarfi við Eflingu halda Fagfélögin til að mynda úti öflugu vinnustaðaeftirliti. Félögin standa sameiginlega að ýmsum námskeiðum og viðburðum sem annars væri fyrir hvert félag að framkvæma.
Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir okkar félag að geta veitt íslenska kokkalandsliðinu heimili og aðbúnað eins og hann gerist bestur, hér í Húsi fagfélaganna. Ég hlakka til að fylgjast með landsliðinu etja kappi á Ólympíuleikunum í Stuttgart í Þýskalandi í febrúar.
Unga fólkið á góðri leið
Árið hefur verið mjög ánægjulegt þegar kemur að keppnishaldi í matvælagreinum. Frábært Íslandsmót iðngreina var haldið í Laugardalshöll í vor, þar sem þúsundir grunnskólabarna komu og kynntu sér iðngreinar. Mót sem þessi verða vonandi til þess að auka enn áhuga ungs fólks á iðnnámi. Sigurvegarar á Íslandsmótinu fóru svo í september og kepptu á Evrópumóti iðngreina í Gdansk í Póllandi. Þar fór út stærsti landsliðshópur sem Ísland hefur sent til þessa. Keppnin var gífurlega stór og þátttaka okkar frábæru keppenda til þess fallin að efla enn frekar okkar efnilegasta fólk. Það var virkilega gaman að fá tækifæri til að fylgjast með keppninni í návígi.
Enn og aftur sýnum við á alþjóðlegum vettvangi að íslenskur iðnaður stendur mjög framarlega. Mótið undirstrikar enn og aftur hversu mikilvægt það er að verja og vernda menntunina okkar. Íslenskir nemar voru einnig á meðal þátttakenda í norrænu nemakeppninni og náðu frábærum árangri.
MATVÍS sendir félagsfólki og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.
Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður.