Óttast að þetta sé bara byrjunin
Verðbólgan hefur étið upp launahækkanir síðasta árs og gott betur. Kaupmáttur dróst saman um ríflega sex prósent á öðrum ársfjórðungi. Kaupmáttur hefur nú rýrnað fjóra ársfjórðunga í röð. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands. Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, ræddi þessa alvarlegu stöðu í kvöldfréttatíma RÚV. „Þetta kemur okkur ekkert á óvart, við erum búin að vera að vara við þessu. Þetta hefur verið á niðurleið núna að undanförnu. Það sem vegur mest í þessu eru náttúrulega vextir og þeir bíta mismikið á heimilin. Það eru náttúrulega þau sem eru skuldsettust sem þetta reynir mest á og það eru yfirleitt tekjulægstu fjölskyldurnar. Það sem við höfum miklar áhyggjur af er að þetta sé bara rétt byrjunin. Vegna þess að það er mjög mikið í pípunum varðandi skuldbreytingu á lánum og ef þessar fjölskyldur verða ekki gripnar með einhverjum hætti þá óttumst við framhaldið,“ sagði hann. Í fréttatímanum sagði Finnbjörn að verðbólgan væri stóra vandamálið. Henni yrði að ná niður og að því verkefni yrðu margir að koma. Hann sagði enn fremur launþegar myndu taka þessar upplýsingar um samdrátt kaupmáttar með sér inn í komandi kjaraviðræður. „Já það liggur bara fyrir að við getum ekki látið þetta liggja hjá óbætt.“