Afnám löggildingar fyrir bakara er á meðal þess sem Angel Gurría, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) nefndi sérstaklega þegar hann fór yfir reglur sem þyrfti að endurskoða á Íslandi. Hann var á meðal þeirra sem tók til máls þegar ný skýrsla um samkeppnismat íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnar var kynnt. Skýrslan var unnin að beiðni stjórnvalda 2018, þegar atvinnulífið var í blóma.
Tilgangur samkeppnismatsins er að greina gildandi regluumhverfi með tilliti til þess hvort í þeim reglum sem atvinnulífinu er gert að starfa eftir felist samkeppnishindranir eða óþarfa reglubyrði sem ryðja megi úr vegi.
Gurría sagði meðal annars grunnurinn að því að koma því sterkari til baka eftir efnahagskrísu væri að auka framleiðni og sveigjanleika. OECD leggur til 438 tillögur að breytingum á gildandi lögum og reglum fyrir ferðaþjónustu og byggingariðnað, sem eru til þess fallnar að draga úr óþarfa reglubyrði og stuðla að aukinni samkeppni innan greinanna.
Í þessu samhengi nefndi Gurría meðal annars tillögur á breytingum á reglum um löggildingu starfsgreina. Hann nefndi að bakarar þyrftu hér að vera með sérstök leyfi. OECD leggur til að afnema slíkt og að reglur um matvælaöryggi ættu að nægja. Það gæti dregið úr kostnaði, bætt val neytenda, ýtt undir atvinnu og bætt framleiðni.
Hér má sjá fundinn.
<iframe width=“560″ height=“315″ src=“https://www.youtube.com/embed/e8yQGjcm14s“ frameborder=“0″ allow=“accelerometer; autoplay; clipboard-write; encrypted-media; gyroscope; picture-in-picture“ allowfullscreen></iframe>