Ný og spennandi námskeið framundan

IÐAN fræðslusetur stendur fyrir fjórum spennandi námskeiðum á veitinga- og matvælasviði á næstunni. Tvö þeirra hafa ekki verið kennd áður; námskeið í vínsmökkun og námskeið sem fjallar um sterk vín.

Á morgun, 20. apríl, heldur IÐAN námskeið sem ber heitið „Sterk vín“. Það hefur ekki verið kennt áður. Markmið vefnámskeiðsins er að kynna nánar framleiðslu og eimingu á sterku víni. Fjallað er um áhrif umhverfis, val á hráefni og sérstöðu sterkra drykkja s.s. vodka og vískís, samkvæmt upplýsingum á vef IÐUNNAR. Fjallað er um framleiðsluaðferðir, einkenni sterkra drykkja, smökkun og bragð. Nánar hér.

Föstudaginn 23. apríl verður haldið námskeið á pólsku fyrir starfsfólk í kjötvinnslum. Fjallað verður um HACCP-kerfið og vöxt og vaxtarskilyrði örvera, svo eitthvað sé nefnt. Markmiðið er að efla þekkingu starfsfólks á innra eftirliti og hollustuháttum í kjötvinnslum, um meðferð og öryggi matvæla og góðum framleiðsluháttum. Nánar hér.

Í næstu viku, miðvikudaginn 28. apríl, fer í fyrsta sinn fram námskeið sem kallast Vínsmakk. Þar verða kynntir grunnþættir víngerðar og upplýsingar á vínflöskum. Farið verður yfir grunnþætti í vínsmökkun og pörun víns með mat. Vínið Montes Alpha Cardonnay verður tekið fyrir á námskeiðinu. Þátttakendur skulu mæta með vínið, vínglas, hvítt blað eða hvíta servíettu og bakka til að spýta í. Námskeiðið er kennt í fjarnámi. Nánar hér.

Þann 4. maí fer fram námskeið sem heitir Fæðuofnæmi og eldun ofnæmisfæðis. Um er að ræða námskeið sem kennt er í fjarnámi. Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu á fæðuofnæmi og fæðuóþoli, á einkennum, algengi og afleiðingum fæðuofnæmis og fæðuóþols. Í framhaldi er farið yfir úrræði og leiðbeiningar í fæðismeðferð og matreiðslu. Nánar hér.