Um 35% félagsfólks MATVÍS, sem tók í haust þátt í skoðanakönnun Vörðu, er sátt við launin sín. Tæplega 30% félagsfólks er ósátt við launin sín. Þetta er á meðal þess sem lesa má úr niðurstöðum könnunarinnar. Svarendur voru 684 talsins, sem gerir 38% þátttökuhlutfall.
Fram kemur í niðurstöðunum að um 40% þátttakenda fá laun í samræmi við launatöflu MATVÍS en 46% ekki. Tíundi hluti svaraði því þannig að þeir vissu það ekki.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum (sjá hér neðar) er launadreifingin mikil. Að sama skapi er ljóst að félagsfólk vinnur heilt á litið mikla yfirvinnu. Tæplega 60% svarenda unnu yfirvinnu í september. 28% unnu eina til tíu yfirvinnustundir þann mánuð en 16% unnu 11-20 yfir vinnustundir. Álíka stór hópur vann meira en 21 yfirvinnustund. Könnunin leiðir í ljós að 60% svarenda kveðst fá greitt fyrir unna yfirvinnu en 31% ekki.
Skýrar áherslur fyrir kjarasamninga
Þátttakendur voru í könnunni spurðir um áherslur fyrir komandi kjaraviðræður. Niðurstöðurnar sýna að áberandi hæst hlutfall félagsfólks setti hækkun launa í fyrsta sæti (60%). Því næst var algengast að leggja mesta áherslu á hækkun grunnlauna og lækkun álags (17%). Þegar litið er til þeirra atriða sem félagar röðuðu í mestu mæli í eitthvert efstu þriggja sætanna sést að algengast var að félagsfólk vildi hækka laun (85%), hækka grunnlaun og lækka álag (72%) og stytta vinnutíma (64%). Lægra hlutfall lagði mesta áherslu á önnur atriði en um fjórðungur vildi betri vinnutíma (25%) og 30 daga orlof (23%). Mun lægra hlutfall lagði áherslu á atvinnuöryggi (15%), bætt starfsumhverfi (9%) og aukin réttindi til starfsnáms, endurmenntunar og símenntunar (7%).
Mjög skiptar skoðanir eru á meðal félagsmanna um hvernig standa skal að launahækkunum í næstu kjarasamningum. Hóparnir sem vilja prósentuhækkanir, krónutöluhækkanir og blandaða leið eru nánast jafn stórir. Þegar spurt var um áhersluatriði gagnvart stjórnvöldum nefndu langflestir mikilvægast að hækka persónuafslátt, eða 53%. Þar á eftir kom hækkun barnabóta með 9% stuðning sem mikilvægasta atriðið.
Kynferðisleg áreitni og einelti
Í könnuninni var einnig spurt um félagsleg atriði og líðan á vinnustað. Í ljós kom að 18 þátttakendur (3,2%) hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í vinnunni eða á vinnutengdum atburðum á síðustu 12 mánuðum. Aðeins fjórir þeirra tilkynnti um áreitið.
Í könnuninni var jafnframt spurt um einelti á vinnustöðum. Þrátt fyrir að yfirgnæfandi meirihluti hafi ekki orðið fyrir einelti síðustu 12 mánuði er ljóst að tilfellin eru of mörg. 25 segjast hafa orðið fyrir einelti en 43 til viðbótar segja það líklegt.
Fjórir af hverjum fimm ánægðir með félagið
Í lok könnunarinnar var spurt um viðhorf til þjónustu MATVÍS og starfsemi. Þegar horft er til þeirra sem tóku afstöðu kemur í ljós að fjórir af hverjum fimm eru ánægðir með starfsemi MATVÍS en fimmti hver segist óánægður.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru þegar kemur að niðurstöðum könnunarinnar. Þær munu nýtast félaginu vel á næstunni og færir MATVÍS félagsfólki þakkir fyrir góða þátttöku. Niðurstöðurnar má í heild kynna sér hér.