Mikilvæg kjarakönnun

Félögin sem standa að Húsi fagfélaganna; Byggiðn, MATVÍS, RSÍ og VM hafa sent félagsfólki kjarakönnun sem mikilvægt er að sem flestir svari. Könnunin er á mínum síðum. Markmiðið með könnuninni er að fá sem gleggsta mynd af kjörum félagsfólks okkar.

Könnunin er mikilvægur liður í undirbúningi næstu kjaralotu, sem hefst strax í haust. Mikil verðbólga og háir vextir hafa á undanförnum mánuðum rýrt kjör okkar verulega. Góð þátttaka í könnuninni er forsenda þess að samninganefndir iðnaðarfólks mæti vel undirbúnar til komandi kjaraviðræðna.

Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS:

„Mikið mun mæða okkar fólki nú þegar ferðaþjónustan hefur tekið við sér á nýjan leik. Það er okkur mjög mikilvægt að fá skýra mynd af kjörum félagsfólks okkar í matæla- og veitingagreinum. Næstu kjaraviðræður verða launafólki í öllum greinum afar mikilvægar og við getum hvergi gefið eftir. Við þurfum að koma vel undirbúin að samningaborðinu og vera tilbúin að verja kjör okkar og réttindi. Ég hvet félagsfólk okkar til að gefa sér tíma til að svara könnuninni.“