Matvælastefna Íslands kynnt – aðgerðir í 31 lið

Í aðgerðaáætlun í nýrri matvælaáætlun stjórnvalda til ársins 2030 kemur meðal annars fram að til standi að endurskoða opinbert eftirlitskerfi tengdu matvælum með heildstæðum hætti. Matvælaáætlun stjórnvalda var kynnt fyrr í vikunni en við mótun stefnunnar horft til fimm lykilþátta: Verðmætasköpun, neytenda, ásýndar og öryggis, umhverfis og lýðheilsu.

 

Markmið stefnunnar er meðal annars að gæði og öryggi verði tryggð í framboði og framleiðslu á matvælum. Almenningur hafi aðgang að hollum matvælum og að matvælaframleiðsla sé sjálfbær. Fjallað er um áskor­an­ir við að standa vörð um fæðuör­yggi lands­manna og mik­il­vægi þess að tryggja aðgengi allra Íslend­inga að hollri fæðu, svo stuðla megi að bættri lýðheilsu til framtíðar.

 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í kynningu að stefnan verði sú að nýta tækifæri innlendrar matvælaframleiðslu til fulls. „Nú þegar er hér á landi fjölbreytt og metnaðarfull framleiðsla sem nýtir gjafir okkar auðlindaríku eyju með sjálfbærni að leiðarljósi. Góðu fréttirnar eru þær að við erum rétt að byrja og að eftirspurnin eftir heilnæmum matvælum sem framleidd eru með litlu kolefnisspori fer vaxandi. Fólk vill vita hvaðan maturinn kemur – þess vegna stefnum við að því að búa til heildstætt kerfi fyrir íslensk matvæli, þannig að fólki gefist kostur á að fá allar upplýsingar með einföldum hætti; um framleiðslustað, framleiðsluhætti og loftslagsáhrif.“

 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir meðal annars að markmiðið sé að tryggja samfellda hagsæld með aukinni verðmætasköpun. „Því þarf matvælastefna að taka til og gæta jafnvægis í lykilgrunnþáttum samfélagsins; félagslegra-, umhverfis- og efnahagslegra þátta.“

 

Í áðurnefndri aðgerðaáætlun, sem telur 31 lið, kennir ýmissa grasa. Þar er meðal annars áhersla á að draga úr matarsóun og nýtingu matvæla auk þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðar.