Markmiðið að gera kjötiðnaðarfólk sýnilegra

Í nýjasta hlaðvarpi IÐUNNAR, Augnablik í iðnaði, er rætt við Jón Gísla Jónsson, landsliðsmann í kjötskurði. Hann er nýkominn heim frá sinni fyrstu alþjóðlegu keppni með landsliðinu. Landsliðið skipa Friðrik Þór Erlingsson, sem er fyrirliði en ásamt þeim Jóni eiga þar einnig sæti Kristján Hallur Leifsson útlitshönnuður, Jóhann Sigurbjarnarson, sem sér um fyllingu og skreytingar, Róbert Skarphéðinsson, sérfræðingur í úrbeiningu, og Bjarki Freyr Sigurjónsson pylsugerðarmaður. „Markmiðið með landsliðinu er að gera kjötiðnaðarfólk sýnilegra,“ segir Jón Gísli.

Fram kemur á vef IÐUNNAR að Ísland hafi verið eina Norðurlandaþjóðin sem tók þátt. Farið er yfir þátttöku Íslands í keppninni í hlaðvarpinu en þemað hjá Íslandi var eldgosið í Meradölum. Dæmt var út frá samvinnu, vinnubrögðum, nýtingu, frumleika og hreinlæti.

Meðfylgjandi mynd er fengin af Instagram-reikningi Jóns Gísla, en þar má sjá myndir frá keppninni sem og myndir af glæsilegum steikum og hráefni úr vinnu hans.