Lýsa yfir sárum vonbrigðum með skilningsleysi

Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, SFV, lýsa yfir sárum vonbrigðum með það sem þau segja fullkomið skilningsleysi stjórnvalda á aðstæðum veitingastaða. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum. Þar segir að skilningsleysið raungerist enn og aftur í nýjum sóttvarnarreglum, sem tóku gildi 13. janúar.

Samkvæmt skoðanakönnun samtakanna frá í desember svaraði helmingur fyrirtækja í greininni því til að reksturinn myndi ekki lifa út febrúar 2021 án frekari tilslakana á fjöldatakmörkunum og opnunartíma.

SFV segjast engin haldbær rök sjá fyrir þeim takmörkunum sem settar eru á veitingageirann og því ósamræmi sem birtist þeim í tilsökunum í öðrum greinum, svo sem leikhúsum og verslunum.

„Það er öllum ljóst að aðgerðir stjórnvalda hafa kippt stoðunum undan rekstrargrundvelli veitingastaða. Greinin hefur mátt búa við fjöldatakmarkanir í tæpt ár og úrræði stjórnvalda hafa verið afar takmörkuð á sama tíma. SVF taka á sama tíma heilshugar undir sjónarmið rekstraraðila kráa og bara sem hafa þurft að upplifa óútskýranlegt ósamræmi og rökleysu hvað varðar sóttvarnarreglur sem þeim er gert að hlíta.“

Áskorun SFV til stjórnvalda:

  • Að hámarksfjöldi viðskiptavina verði hækkaður í 50 manns líkt og hjá verslunum.
  • Að kráir og barir fái að starfa skv. sömu skilmálum og veitingastaðir.
  • Að opnunartími veitingastaða verði til kl. 23.00.
  • Hið opinbera hjálpi endureisn veitingageirans með skattaívilninum í framtíðinni með tímabundinni endurgreiðslu virðisaukaskatts í tólf mánuði Júlí 2021- Júlí 2022 til að aðstoða greinina til viðspyrnu eftir þessa erfiðu tíma.