Atvinnurekanda er aðeins heimilt að telja þá veikindadaga starfsmanns sem hann hefði í fjarveru sinni að öðrum kosti unnið. Honum er óheimilt að telja almanaksdaga. Með öðrum orðum teljast veikindadagar í vinnudögum – ekki almanaksdögum. Þetta kemur fram í úrskurði Félagsdóms.
Fram kemur á vef Alþýðusambands Íslands að ítrekað hafi komið til ágreinings á milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins um þetta atriði. „SA hefur haldið því fram að telja skuli almanaksdaga í forföllum en ASÍ haldið því fram að einungis skuli telja þá daga sem launamaður hefði að óbreyttu átt að vinna. Félagsdómur staðfesti túlkun ASÍ með dómi sínum þann 17. desember sl. í máli Verkalýðsfélags Snæfellinga gegn Íslandshótelum.“
Deilan hefur snúist um úttekt veikindadaga á fyrsta starfsári, það er þegar starfsmenn ávinna sér tvo daga fyrir hvern unnin mánuð. Félagsdómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að „starfsmaður á fyrsta starfsári taki aðeins út veikindarétt sinn þá daga sem hann hefði að óbreyttu átt að vinna, það er þegar hann hefur forfallast, en ekki þegar hann átti að vera í fríi“.
Fram kemur að dómurinn hafi tekið á fleiri ágreiningsefnum, svo sem um þau tilvik þegar starfsmaður lýkur 100% vinnu sinni að á fjórum dögum í stað fimm – samkvæmt samkomulagi þar um. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að atvinnurekenda geti verið heimilt að telja forföll í klukkustundum og draga þær frá áunnum veikindarétti í klukkustundum. ASÍ tekur fram að hér er ekki verið að tala um talningu yfirvinnustunda eða úttekt, heldur einungis þær stundir sem færðar eru samkvæmt heimild í kjarasamningum. „ Starfsmaður sem t.d. skilar 100% starfi á 4 dögum í stað fimm, ávinnur sér áfram 2 daga fyrir hvern unnin mánuð en þegar að úttekt kemur kann að vera eðlilegt, veikist hann í heila viku, að telja hann taka út 5 veikindadaga en ekki 4. Dómurinn breytir hins vegar engu fyrir hlutavinnustarfsmann sem vinnur t.d. 4 daga í viku (80%). Í hans tilviki myndi úttektin áfram vera 4 dagar en ekki fimm.“