Kristján tekinn við embætti forseta ASÍ

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, hefur tekið við embætti forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Embættinu mun hann gegna fram að þingi ASÍ sem fram fer í októbermánuði. Þetta kemur fram á vef ASÍ.

Kristján Þórður tekur við embætti forseta af Drífu Snædal sem sagði af sér á miðvikudag. Kristján Þórður var sjálfkjörinn 2. varaforseti á 43. þingi ASÍ haustið 2018 og varð 1. varaforseti Alþýðusambandsins við afsögn Vilhjálms Birgissonar, núverandi formanns Starfsgreinasambands Íslands, í aprílmánuði 2020. Kristján var sjálfkjörinn 1. varaforseti á þingi ASÍ í október 2020.

Kristján Þórður hefur verið formaður Rafiðnaðarsambands Íslands frá 2011. Árið 2008 var hann kjörinn formaður Félags rafeindavirkja.