Íslenska kokkalandsliðið hafnaði í 3. sæti á Ólympíuleikunum í matreiðslu í Stuttgart. Finnar hrepptu fyrsta sætið en Sviss náði silfrinu.
Með þessu jafnaði landsliðið sinn besta árangur en liðið hafnaði einnig í þriðja sæti fyrir fjórum árum. Fimmtíu og fimm þjóðir tóku þátt í leikunum í ár.
Íslenska liðið fékk gulleinkunn fyrir báðar keppnisgreinarnar. Á sunnudag var keppt í Chef’s table, tólf manna borð með 11 rétta matseðli. Á þriðjudag var seinni greinin þar sem matreiða þurfti þriggja rétta máltíð fyrir 110 manns.
Í gulleinkunn felst að liðið fékk 91 stig af 100 mögulegum.
Lokaniðurstöður dómara eru hins vegar ekki birtar fyrr en á lokadegi sem var í gær og þá eru samanlögð stig fyrir báðar greinar lagðar saman og allar keppnisþjóðirnar bornar saman.
MATVÍS færir kokkalandsliðinu innilegar hamingjuóskir með árangurinn.