Kjötmeistari Íslands krýndur á laugardag

„Í hverri keppni kemur eitthvað óvænt. Í gær smakkaði ég til dæmis tvær vörur sem komu mjög skemmtilega á óvart,“ segir Eðvald Valgarðsson, yfirdómari í fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna í samtali við MATVÍS.

Keppnin, sem fer fram á tveggja ára fresti, var að þessu sinni haldin í Húsi fagfélaganna á Stórhöfða en unnið er að því í samvinnu við Bændasamtökin að Fagkeppnin 2026 verði hluti af Landbúnaðarsýningu Bændasamtakanna.

Fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna er nú haldin í sextánda sinn. Keppni er háð í fimm flokkum. Flokkarnir eru; eldaðar vörur, sælkeravörur, soðnar pylsur, kæfa/paté og nýjungar.

Kjötiðnaðarmenn um allt land, ýmist sveinar eða meistarar í kjötiðn senda inn vörur sem dómnefndin smakkar og tekur út. Hver kjötiðnaðamaður má senda allt að 10 vörur en fjöldi þátttakenda og nöfn þeirra eru dómnefndinni á huldu. Að þessu sinni bárust um 100 vörur til keppninnar. Þær fimm vörur sem flest stig hljóta frá hverjum keppanda telja í lokin til titils Kjötmeistara íslands 2024, en þann titil hlýtur eins og áður sá sem flest stig fær í heildina.

„Flestir sem starfa í kjötiðnaði eru að framleiða sínar eigin vörur. Við fáum allt frá hefðbundnu hangikjöti til lifrarkæfu með súkkulaðibragði,“ segir Eðvald um keppnina. „Við smökkum allar vörurnar, metum út frá innra og ytra útliti, verkunaraðferðum og bragði,“ útskýrir hann.

Allir byrja með fullt hús stiga – gull – en stig eru dregin frá fyrir þau atriði sem betur hefðu mátt fara að mati dómaranna. „Síðan eru veitt verðlaun, gull, silfur eða brons og fagmaðurinn fær í sínu nafni diplómu til að hengja upp á vegg á vinnustaðnum, ef hann fær góða einkunn. Í þessari keppni fær kjötiðnaðarmaðurinn sjálfur viðurkenninguna en ekki fyrirtækið sem hann vinnur hjá,“ áréttar hann.

„Við erum að leita eftir bestu vörunni en viljum líka að fagfólkið sé frjótt og virkt. Okkur berast jafnan mjög ólíkar vörur í þessa keppni,“ segir Eðvald. Dómnefndin gefur sér tvo daga til að smakka og meta innsendar vörur en þegar MATVÍS bar að garði eftir hádegi á fimmtudag var seinni dagurinn að hefjast. Greina mátti mikla tilhlökkun hjá dómnefndinni, sem var í þann mund að hefja störf. „Þetta er hrikalega gaman – alveg meiriháttar,“ segir Eðvald að lokum.

Kjötmeistari Íslands 2024 verður krýndur verður í Húsi fagfélaganna, Stórhöfða 31, á laugardag. Gengið er inn í húsið neðan frá, eða Grafarvogsmegin.