Ís­lensku kepp­endurnir til­búnir í slaginn

Á sunnudag ferðast matreiðslumennirnir, Sindri Guðbrandur Sigurðsson, Gabríel Kristinn Bjarnason, Sveinn Steinsson og Aþena Þöll ásamt framreiðslumanninum Steinari Bjarnasyni, til Herning í Danmörku til að taka þátt í keppnum í Norðurlandamótinu í matreiðslu og framreiðslu. Mikil spenna er fyrir keppnina enda eru norrænu liðin í hópi sterkustu liða heims. Matreiðslumenn frá Norðurlöndum raða sér yfirleitt í öll efstu sæti alþjóðlegra keppna. Síðasta æfing keppendanna fór fram í æfingaeldhúsi MATVÍS á Stórhöfða.

„Æfingin í dag tókst afskaplega vel. Þetta frábæra fagfólk verður okkur til sóma á mótinu, það er engin spurning. Þau eru klár í þetta verkefni,” sagði Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, eftir í æfinguna í dag og bætti við: „Það er hugur í hópnum, þetta er fyrsta keppnin sem við förum á erlendis síðan veiran skall á þannig að er tilhlökkun og spenna hjá okkur að sjá hvar við stöndum á meðal norðurlanda þjóðanna sem hafa verið okkar helstu keppninautar um efstu sætin bæði á heimsmeistarakeppninni og Ólympíuleikunum í faginu.“

Sindri Guðbrandur mun taka þátt í keppninni um matreiðslumann Norðurlandanna en þar keppa sterkustu matreiðslumenn allra Norðurlandanna. Gabríel Kristinn keppir í keppninni um ungkokkur Norðurlandanna en eins og nafnið gefur til kynna er þetta keppni milli efnilegustu matreiðslumann á Norðurlöndunum.

Sveinn og Aþena keppa svo í liðakeppni í nýrri keppni sem ber nafnið Nordic Green Chef. Keppnin hefur verið í undirbúningi hjá Norðurlandasamtökum matreiðslumanna um nokkurt skeið og er jafnvel gert ráð fyrir að þessi keppni eða sambærileg eigi eftir verða að alþjóðlegri keppni.

Steinar keppir svo um titilinn framreiðslumaður Norðurlandanna, en Klúbbur matreiðslumeistara hefur um árabil sent framreiðslumann í þessa keppni.

Síðasta æfing hluta hópsins fór fram á fimmtudaginn þar sem nokkrir matreiðslumenn og velunnarar Klúbbs matreiðslumeistara nutu veitinganna.