Þátttakendur Íslands á Euroskills, Evrópumóti iðn-, verk- og tæknigreina, gerðu sér glaðan dag í gær, 21. september, þegar þeir þáðu heimboð forseta Íslands á Bessastaði. Guðni Th. Jóhannesson bauð keppendur, þjálfara þeirra og bakhjarla velkomin heim.
Í ávarpi sínu minnti Guðni á mikilvægi iðn-, verk- og tæknigreina fyrir íslenskt samfélag og gildi þess að fólk á öllum aldri veldi sér nám og starf eftir eigin áhugasviði.
Hann veitti þátttakendum og þjálfurum viðurkenningarskjöl fyrir árangur sinn auk þess sem þeir sem bestum árangri náðu voru verðlaunaðir sérstaklega. Að athöfn og myndatökum loknum var gestum boðið upp á veitingar.
Veðrið sýndi sínar allra bestu hliðar á Bessastöðum – og hæfði það tilefninu vel.
Forsetinn lýsti yfir ánægju sinni með samkvæmið á samfélagsmiðlum í gær. „Mikið var gaman að taka í dag á móti fulltrúum Íslands á Evrópumótinu í iðn- og verkgreinum sem haldið var í Gdansk í Póllandi fyrir skemmstu. Keppendur okkar stóðu sig með sóma og nutu atbeina einvalaliðs héðan, þjálfara, liðsstjóra og annarra. Um leið er svo gaman að sjá hvernig vegur iðn- og verkgreina hefur eflst á Íslandi.
Við þurfum að geta boðið upp á fjölbreytt nám sem hæfir óskum og vonum hvers og eins. Þannig fær fólk að sýna hvað í því býr, sjálfu sér og öðrum til heilla. Aftur til hamingju, frábæru fulltrúar Íslands!“ skrifaði hann.