Gervigreind og pylsugerð

Námskeið í notkun gervigreindar er á meðal þess sem stendur félagsmönnum til boða hjá IÐUNNI fræðslusetri á haustönn. Á námskeiðinu, sem ber yfirskriftina Gervigreind og gerð skipana í ChatGPT fer fram kynning á spjallmennum og gervigreind og hvernig á að búa til góðar leiðbeiningar fyrir gervigreindina. Farið í möguleika þess að nota ChatGPT á íslensku. Farið er yfir hvaða aðferðum má beita til að skrifa góðan og nákvæman texta og hvað þarf að varast.

Á dagskrá haustannar er einnig að finna námskeið í pylsugerð. Farið er yfir undirstöðuatriði í pylsugerð s.s. vali á kryddum, saltmagni, fituprósentu og uppskriftagerð. Þátttakendur vinna pylsufars eftir uppskrift frá kennara, u.þ.b tvö kg af pylsum og sprauta í garnir. Námskeiðið hentar bæði byrjendum og lengra komnum sem vilja öðlast betri þekkingu á pylsugerð.

Þriðja námskeiðið sem hér er kynnt til leiks er námskeið sem ber heitið Hátíðar paté og grafið kjöt. Á námskeiðinu eru kennd undirstöðuatriði við bæði patégerð og að grafa kjöt. Farið er yfir helstu þætti sem snúa að framleiðslunni, t.d. val og snyrting hráefna, val á kryddum og vinnsluaðferða. Innifalið í námskeiðinu er það hráefni sem snýr að hverjum þætti námskeiðsins. Þetta námskeið hentar öllum þeim sem vilja öðlast aukna innsýn í mismunandi vinnsluþætti kjötvara. Námskeiðið hentar bæði byrjendum og lengra komnum.