Forsetinn skaraði fram úr í kokteilakeppni MK

Kokteilakeppni Menntaskólans í Kópavogi fór fram í fyrsta sinn þann 4. nóvember. Þar kepptust nemendur við hótel- og matvælaskólann við að búa til glæsilega óáfenga kokteila.

Frá þessu er sagt á vef Veitingageirans en dómnefnd skipaði jafnt fagfólk úr veitingageiranum sem og áhugafólk um kokteila.

Fimmtudaginn 4. nóvember s.l. var í fyrsta skipti keppt í kokteilakeppni í Menntaskólanum í Kópavogi, þar sem nemendur kepptu í því að búa til glæsilega óáfenga kokteila.

Keppendur fengu 10 mínútur í undirbúning (hráefni tekið til og skreytingar undirbúnar) og 10 mínútur í framkvæmd. Keppendur þurftu að skila tveimur glösum með kokteilum, annað fyrir keppnisborðið og hitt fyrir ´dómnefnd. Skilyrði var að kokteillinn bæri nafn og að uppskrift skyldi fylgja.

Verðlaun voru veitt fyrir frumlegasta nafnið, faglegustu vinnubrögðin og flottustu skreytinguna, að auki verður sigurdrykkurinn notaður í kringum viðburði í MK, að því er fram kemur á síðunni. Halla bar sigur úr býtum með drykkinn El Presidente – eða Forsetinn.