Fjörutíu nemendur að ljúka sveinsprófum

Í dag lýkur sveinsprófum í matreiðslu og framleiðslu í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi. Ólafur Jónsson, sviðsstjóri matvæla- og veitingasviðs IÐUNNAR fræðsluseturs, segir að 28 nemendur hafi daganna 4. til 7. janúar þreytt sveinspróf í matreiðslu en 13 í framreiðslu.

Sveinspróf í matreiðslu skiptist í eftirfarandi verklega og fagbóklega prófþætt:

  1. Próftaki setur upp fimm rétta matseðil ásamt canapé.
  2. Próftaki lagar þrjár tegundir af canapé og grænmetis Charlotte með klassískri sósu.
  3. Úrbeining á lambalæri og flökun á fiski.
  4. Vöru og fagþekking.

Sveinspróf í framreiðslu skiptist í eftirfarandi verklega og fagbóklega prófþætti:

  1. Borðlagning – Próftaki setur upp borð fyrir hátíðarkvöldverð, dúkar, leggur diska, hnífapör og glös á borð, vinnur borðskreytingu, setur upp vínseðil og fl.
  2. Framreiðsla og framreiðsluhættir. Samskipti við gesti.
  3. Bar – blöndun drykkja.
  4. Eldsteiking og fyrirskurður.
  5. Vöru og fagþekking sem skiptist í skriflegt próf og munnlegt.

Ólafur segir að nemendum á samningi í matvæla- og veitingagreinum hafi verið að fækka frá árinu 2018 eða töluvert áður en heimsfaraldurinn skall á. „Það sem við sjáum helst er að fyrirtæki hafa haldið nokkuð að sér höndum að taka inn nema á námssamning á síðasta ári í stað þeirra sem luku sveinsprófi.“

Hann segir að úrræði á borð við hlutabótaleiðina hafi aukið sveigjanleika í kerfinu og orðið til þess að fyrirtæki sögðu síður upp námssamningi við nemendur. Eins hafi Hótel- og matvælaskólinn í Kópavogi tekið inn fleiri nemendur en alla jafna á haustönn, þegar kemur að námi í framreiðslu og matreiðslu – sem sé til þess fallið að létta á fyrirtækjum í veitingageiranum. „Sveigjanleiki í kennslu og námi sem er til að mynda til staðar í matvæla- og veitingagreinum hefur klárlega komið í veg fyrir uppsagnir á nemum,“ segir Ólafur.