Fjögurra daga vinnusmiðja með Josep Pascual

Spennandi námskeið á matvælasviði eru á dagskrá IÐUNNAR fræðsluseturs. Fyrst ber að nefna fjögurra daga vinnusmiðju fyrir bakara með Josep Pascual, sem hefst þann 17. apríl. Josep fer yfir Pascual aðferðina; hæggerjun á brauði, skreytingar og aðferðir sem skila góðum árangri í keppnum í bakstri. Josep er virtur og margverðlaunaður bakari. Hann er yfirþjálfari spænska landsliðsins í bakstri og í dómnefnd á heimsmeistaramóti í bakstri.

Tveir dagar vinnusmiðjunnar eru helgaðir brauði og verður farið yfir 20 mismunandi, áferðir, bökunartækni og hönnun. Seinni dagarnir verða helgaðir sætabrauði og farið í mismunandi leiðir til gerjunar, skreytingar og hvernig má virkja sköpunargáfuna í þeirri vinnu. Fullt verð er 100 þúsund krónur en okkar félagsmenn greiða 25 þúsund krónur fyrir klukkustundirnar 24.

Þann 4. maí er á dagskrá námskeið þar sem farið er yfir þá möguleika til styrkja sem í boði eru í íslenskum iðnaði.  Á þessu námskeiði er farið yfir þá möguleika sem eru í boði á styrkjum á Íslandi í minni og meðalstór verkefni í íslenskum iðnaði. Farið verður í grunnatriði umsóknar um styrki og það sem þarf að hafa í huga við skrif og upplýsingagjöf til sjóða og styrktaraðila.
Á námskeiðinu verða tekin ímynduð dæmi úr íslenskum iðnaði, til dæmis úr bílgreinum, byggingar-og mannvirkjagreinum og prent- og miðlunargreinum um verkefni sem eiga möguleika á styrkjum. Farið verður í hvað einkennir vel rökstutt verkefni og góða styrkjaumsókn og ábatann af því að sækja um styrki í verkefni. Fyrir hvern þátttakanda verður keypt tré til að binda á móti framkvæmd námskeiðsins.

Fjölbreytt vefnámskeið í boði

Þá stendur félagsmönnum til boða að sækja vefnámskeið af ýmsum toga. Þar má nefna námskeið um íslenskar jurtir í matargerð, hráverkun og pylsugerð, slátrun og kjöt mat og námskeið um sögun, úrbeiningu og mareneringu. Sjá nánar hér fyrir neðan.

  • Íslenskar jurtir í matargerð
  • Hráverkun og pylsugerð
  • Slátrun og kjötmat
  • Sögun, úrbeining og marenering.
  • Söltun og reyking
  • Örverur á kjöti
  • Viskí
  • Klassískir kokteilar
  • Bjór og bjórstílar