Finnur og Hinrik verðlaunaðir á Euroskills

Fjórir íslenskir keppendur hlutu viðurkenninguna „Medallion for Excellence“ á Evrópumóti iðn-, verk- og tæknigreina sem fram fór í Póllandi dagana 5.-9. september. Ísland átti þar ellefu unga keppendur úr jafn mörgum iðngreinum – og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Ísland vann ekki til verðlauna að þessu sinni en þau Irena Fönn Clemmensen (hársnyrtiiðn), úr Verkmenntaskólanum á Akureyri, Finnur Guðberg Ívarsson (bakaraiðn) úr Hótel- og matvælaskólanum, Benedikt Máni Finnsson (iðnaðarstýringum) úr Tækniskólanum og Hinrik Örn Halldórsson (matreiðslu) úr Hótel- og matvælaskólanum voru verðlaunuð fyrir framúrskarandi árangur í sínum greinum.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Verkiðn að Írena Fönn hafi hlotið sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa verið stigahæsti keppandinn í íslenska landsliðinu. Hún keppti í hársnyrtiiðn.

„Árangur íslenska landsliðsins var mjög góður og andinn í hópnum var frábær,“ segir Georg Páll Skúlason, formaður Verkiðnar / Skills Iceland. „Það sem er kannski mikilvægast er að keppendur hafa safnað mikilvægri reynslu og minningum sem þau varðveita til framtíðar. Ísland hefur aldrei sent jafn marga fulltrúa í Euroskills, en ætla má að íslenski hópurinn hafi talið um 40 manns með þjálfurum og aðstoðarfólki. Ég er afskaplega stoltur af þessum hópi og er sannarlega bjartsýnn á framtíðina þegar kemur að iðn- og verknámi á Íslandi,“ segir Georg Páll.