Fagfélögin sýna Palestínu samstöðu

Fagfélögin fordæma yfirstandandi árás Ísrael á Gaza. Hernaðaraðgerðirnar hafa kostað um 30 þúsund mannslíf. Ljóst er að liðlega helmingur fallinna eru börn. Ísraelsmenn hafa með framferði sínu virt alþjóðalög að vettugi og engu skeytt um afleiðingar árása sinna. Flestir óbreyttir borgarar sem ekki hafa fallið hafa verið hraktir á flótta eða heimili þeirra eyðilögð.

100 dagar eru nú liðnir frá upphafi árásanna. Fagfélögin hafa í dag ákveðið að sýna Palestínumönnum samstöðu með því að flagga palestínska fánanum. Hann var dreginn að húni á Stórhöfða 29-31 á hádegi í dag. Með þessari táknrænu aðgerð vilja félögin sýna almenningi í Palestínu stuðning.

Verkalýðshreyfingin hverfist um lýðræði, mannréttindi og frið. Verkalýðsfélög um allan heim hafa beitt sér gegn yfirstandandi hörmungum á Gaza. Fagfélögin skora á íslensk stjórnvöld að leita allra leiða til að þrýsta á að endir verði bundinn á hörmungarnar.