Fagfélögin leggja góðum málefnum lið

Fulltrúar Rauða kross Íslands og Samhjálpar tóku við styrkjum frá Fagfélögunum skömmu fyrir jól. Hefð er fyrir því á meðal Fagfélaganna að styrkja góð málefni á þessum árstíma.

„Svona stuðningur hjálpar gífurlega, bæði við starf okkar innanlands sem og erlendis,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, teymisstjóri fjáröflunar og kynningar hjá Rauða krossi Íslands. Hann segir að starfsemi Rauða krossins byggi að stærstum hluta á styrkjum sem þessum, til dæmis verkefnin Frú Ragnheiður og 1717 – hjálparsíminn. „Þessi verkefni eru nær eingöngu fjármögnuð af Rauða krossinum. Það er gífurlega mikilvægt að geta haldið þessum góðu verkefnum gangandi.“

Rósý Sigurþórsdóttir, forstöðukona kaffistofu Samhjálpar, tók við styrknum fyrir hönd Samhjálpar. „Þetta hefur þá þýðingu að við getum haldið áfram að byggja upp kaffistofuna og vonandi fengið nýtt húsnæði – sem er eitthvað sem við stefnum að á nýju ári. Húsið sem höfum í dag er algjörlega óviðunandi og þessi styrkur færir okkur nær þessu markmiði okkar. Þetta hefur mjög mikið að segja fyrir okkur,“ segir hún.

Á myndinni eru frá vinstri: Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS, Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ, Jón Bjarni Jónsson, formaður Byggiðnar, Gylfi Þór Þorsteinsson, teymisstjóri Rauða krossins, Rósý Sigurþórsdóttir, forstöðukona kaffistofu Samhjálpar og Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM.