Fagfélögin fordæma vinnubrögð Samtaka atvinnulífsins

Samninganefnd Fagfélaganna hefur sent fjölmiðlum eftirfarandi yfirlýsingu:

Samninganefnd Fagfélaganna (RSÍ, VM og MATVÍS) fordæmir það bragð Samtaka atvinnulífsins að neita að mæta til samningafunda í kjaradeilu sinni við flugumferðarstjóra, nema þeir falli frá fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum sínum. Með þessu hótar SA að ganga í berhögg við landslög en sáttasemjari hefur heimild til að boða til fundar hvenær sem er. Aðilum ber þá að mæta.

Enn fremur er sú yfirlýsing innviðaráðherra að til standi að setja lög á verkföll flugumferðarstjóra ótímabær og vegur með freklegum hætti að verkfallsrétti launafólks. Veita á vinnandi stéttum svigrúm til að semja um sín kjör. Verkfallsrétturinn er grunnréttur launafólks í sinni kjarabaráttu. Á honum má ekki traðka.

Fagfélögin skora á atvinnurekendur að mæta á samningafund sem allra fyrst til þess að leysa deiluna. Ljóst er að Samtök atvinnulífsins telja sig yfir landslög hafin með framgöngu sinni. Vinnubrögð sem þessi eru ólíðandi.

Samninganefnd Fagfélaganna