Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið framlengja gildandi reglugerðir um takmarkanir á samkomum og skólastarfi fram til 9. desember næstkomandi. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Ákvörðun um þetta var kynnt nú fyrir hádegi á miðvikudag.

 

Vonir höfðu verið bundnar við að til stæði að rýmka sóttvarnarreglur. Jakob Einar Jakobsson, fulltrúi veitingamanna hjá Samtökum atvinnulífsins, sagði við RÚV í gær að skammur fyrirvari á samkomutakmörkunum komi sérstaklega illa við veitingamenn.

 

„Það er skelfilegt ástand að vita ekki hvað býr rétt handan við hornið, við erum búin að vera í því frá 12. nóvember að hringja í á þriðja hundrað manns dag hvern og tilkynna því að það megi því miður ekki koma til okkar.  Auðvitað stóðu vonir okkar til að það yrði einhverju aflétt, en manni sýnist það stefna í óbreytt ástand. Það er alveg glatað að hafa ekki nema tvo daga til að bregðast við þeim aðstæðum,“ sagði Jakob Einar í frétt RÚV. Í morgun var svo staðfest að óbreytt ástand verður til 9. desember, hið minnsta.

 

Hann benti þar á að veitingarekstur stæði mjög höllum fæti miðað við aðra geira. Reksturinn væri frábrugðin verslunarrekstri þar sem fólk gæti hlaupið inn og út á tíu mínútum. Á veitingahús komi fólk yfirleitt saman í litlum hópum og dvelji þar í tvo tíma. Hann býst við að mánaðamótin verði mörgum erfið, því ekki enn sé hægt að sækja um lokunarstyrki.