„Ein sterkasta keppni sem við höfum haldið“

„Þetta er ein sterkasta keppnin sem við höfum séð í bakstri,“ segir Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir, yfirdómari í keppni í bakstri á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fram fór í Laugardalshöll um helgina.

MATVÍS ræddi við Þóreyju þegar keppnin var í fullum gangi. Nemendur fengu það verkefni að gera eitt skrautstykki, þrjár týpur af vínarbrauði, hefðbundið brauð, baguette og brioche-brauð með ósætri fyllingu. Þau völdu sér þemu en ástin, sumarið og bleika slaufan urðu fyrir valinu.

Keppendur höfðu 10 tíma til að þreyta verkefnið, fimm stundir hvorn keppnisdag, og óhætt er að segja þeir hafi haft í mörg horn að líta. Þórey bendir á að í keppni sem þessari séu aðstæður öðruvísi en þau eru vön. Hitastigið í salnum, hitastig vatns í krana og annar aðbúnaður sé frábrugðinn. „Þessir keppendur þurfa að nota þekkingu sína og kunnáttu til að leysa verkefnið og ná markmiðum sínum,“ segir hún.

Sjá einnig: Þátttökuréttur á Euroskills í húfi

Dómarar keppninnar dæmdu afurðir keppenda út frá útliti, bragði, fagmennsku og erfiðleikastigi. Svo fór að Finnur Guðberg Ívarsson sigraði keppnina og verður hann fulltrúi Íslands á Euroskills í Póllandi í haust. Aðrir keppendur voru Matthías Jóhannesson og Hekla Guðrún Þrastardóttir.

Haldin var forkeppni í Hótel- og veitingaskólanum í MK, þar sem bakstur er kenndur á Íslandi. Þar kepptu fimm nemendur um þrjú laus sæti í keppninni. Þórey segir að forkeppnin hafi verið hörð og litlu hafi mátt muna. „Þessir keppendur hér hafa allir verið á samningi, Finnur er hjá Bláa lóninu, Matti hjá Passion Reykjavík og Hekla hjá Hugge Coffey & Micro Bakery. Keppendurnir voru ýmist á þriðja ári eða lokaári í námi.

Sjá einnig: Glæsilegri keppni í framreiðslu lokið

„Það er rosalega flott fyrir bransann að fá jafn sterka keppendur til að taka þátt og raun ber vitni nú. Þetta er það sem við viljum – framtíðin er björt,“ segir Þórey að lokum.

Fjórir kepptu í kjötiðn

Glæsileg keppni var jafnframt haldin í kjötiðn. Þar kepptu Bríet Berndsen Ingvadóttir – Sláturfélag Suðurlands, Kristófer Steinþórsson – Ali/Síld og Fiskur, Lukasz Gryko – Esja Gæðafæði og Björn Mikael Karelsson – Kjötbúðin.

Hver keppandi fékk lambskrokk, grísahrygg með síðu og lund, nautamjöðm og nautaframhrygg. Keppendur höfðu nokkuð frjálsar hendur og útbjuggu glæsileg kjötborð með fjölbreyttum réttum. Til þess höfðu þeir fjórar klukkustundir. Keppendur fengu 120 mínútur til að hluta niður og úrbeina en aðrar 120 mínútuur til að fullvinna kjötið svo það væri tilbúið í kjötborð. Dæmt var eftir útliti, fjölbreytni, nýbreytni, nýtingu, fagmennsku og hreinlæti.

Styrktaraðilar keppi í kjötiðn voru Kjarnafæði, Norðlenska, Stjörnugrís, Samhentir, Eskja/Gæðafæði og Multivac.

Svo fór að Björn Mikael Karelsson bar sigur úr bítum og var krýndur Íslandsmeistari að keppni lokinni.

Allir sigurvegararnir

Hér fyrir neðan má sjá sigurvegara í keppnum í veitingagreinum á Íslandsmóti iðn- og verkgreina í Laugardalshöll 2023. Þessir keppendur verða fulltrúar Íslands á Euroskills í Gdansk í september.

Bakaraiðn: 1. sæti – Finnur Guðberg Ívarsson, Bláa Lónið
Kjötiðn: 1. sæti – Björn Mikael Karelsson, Hótel og veitingaskólinn
Framreiðsla: 1. sæti – Finnur Gauti Vilhelmsson, VOX Brasserí
Matreiðsla: 1. sæti – Hinrik Örn Halldórsson

MATVÍS óskar sigurvegurum og þátttakendum öllum til hamingju með árangurinn.