Mikil eftirspurn er á meðal veitingahúsa eftir því að fá nemendur í mat- og framreiðslu á námssamning. Áfangastjóri Hótel- og matvælaskólans kallar eftir því að nemendur sem vilja komast á samning hafi samband.
Þetta kemur fram í grein eftir Baldur Sæmundsson áfangastjóra, á vefnum veitingageirinn.is. Þar rekur Baldur að kórónuveirufaraldurinn hafi leitt til uppsagna á námssamningum. Skólinn hafi brugðist við með því að taka á móti fleiri nemendum sem sóttum um nám í skólanum, haustið 2020 og vorið 2021. Eftir að höftum hafi verið le´tt og ferðamenn hafi tekið að streyma aftur til landsins sé staðan gerbreytt.
„Margir veitingastaðir hafa sett sig í samband við áfangastjóra Hótel- og matvælaskólans og óskað eftir aðstoð við að útvega nemendur á samninga í greinunum. Þetta er nokkuð breytt staða og ástæða til að benda ungu fólki á möguleika þá sem þessi störf bjóða,“ skrifar Baldur.
Hann hvetur þá sem hafa áhuga á að fara á námssamning í framreiðslu og eða matreiðslu að hafa samband á netfangið baldur.saemundsson@mk.is eða í síma 594-4000. Hann muni reyna að aðstoða eftir fremsta megni.