Rúmensku starfsmennirnir sem hlunnfarnir voru á byggingasvæði á Suðurlandi fyrr á árinu hafa fengið laun sín greidd í samræmi við kjarasamninga. Yfirverktaki á byggingasvæðinu hélt, í samráði við vinnustaðaeftirlit Fagfélaganna, Eflingar og Bárunnar, eftir greiðslu til undirverktaka þar til búið var að gera upp við starfsfólkið. Staðfesting á réttum greiðslum barst stéttarfélögunum núna í vikunni.
Sjá eldri frétt: Brotið á réttindum rúmenskra starfsmanna
MATVÍS greindi frá málinu fyrr í haust. Starfsmennirnir sem um ræðir höfðu ekki fengið launaseðla og þeir vissu ekki hvað þeir höfðu í laun, hvorki fyrir né eftir skatta. Eftirlitsfulltrúarnir höfðu þá samband við aðalverktaka og minntu hann á ákvæði laga um keðjuábyrgð.
Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að starfsmönnunum, sem allir eru iðnaðarmenn án sveinsprófs en eru búsettir á Íslandi, hafði verið greitt undir taxta bæði þegar kom að dagvinnu og yfirvinnu. Ranglega hafði verið staðið að styttingu vinnutíma, desember- og orlofsuppbætur höfðu ekki verið greiddar auk þess sem launamennirnir fengu ekki umsamda kauphækkun þann 1. nóvember 2022. Þá hafði starfsmönnunum ekki verið greitt fyrir akstur.
Aðalverktaka er í lögum um keðjuábyrgð gert skylt að tryggja og bera ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn hans, undirverktaka eða starfsmannaleiga, sem koma að framkvæmd samnings fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og njóti annarra réttinda sem þeim ber.
Aðalverktakinn, rótgróinn aðili á Suðurlandi, tók málið föstum tökum og vann með vinnustaðaeftirlitinu að úrlausn málsins. Sú samvinna hefur borið árangur, nú níu mánuðum síðar. Starfsmenn þessa undirverktaka fá greitt samkvæmt réttum taxta í kjarasamningi og fá launaseðla senda í netbanka. Þannig geta þeir fylgst betur með kjörum sínum en áður.
Vinnustaðaeftirlit Fagfélaganna og Eflingar heimsækir vinnustaði með reglubundnum hætti til að tryggja að farið sé að kjarasamningum og öðrum lögum og reglum sem gilda á vinnustöðum. Eftirlitið mun fylgja því eftir að starfsmenn í umræddu máli muni áfram fá greidd laun í samræmi við samninga.