Breytingar á reglum dýrahald og þrif

Stjórn MATVÍS ákvað á fundi sínum í vikunni að gera tvær breytingar á reglum um útleigu orlofshúsa félagsins. Breytingarnar byggja á niðurstöðum skoðanakönnunar félagsins og taka gildi í haust, að sumartímabili loknu.

Dýrahald í Grímsnesi 2

Annars vegar er um að ræða breytingu á reglum um dýrahald. Ákveðið hefur verið að í Grímsnesi 2 verði leyfilegt að hafa gæludýr meðferðis. Ríflega helmingur þátttakenda studdi málið en tiltölulega lítill hluti var á móti.

Félagsmenn með dýr eru eins og aðrir minntir á að ganga vel um húsið og fylgja reglum um þrif og frágang í hvívetna. Auk þess skal þess gætt að dýrið valdi ekki öðrum gestum orlofsbyggðarinnar ónæði.

Þrif áskilin í íbúðunum

Hins vegar er um að ræða breytingu á reglum um útleigu íbúða félagsins á Akureyri og í Reykjavík. Ákveðið hefur verið að innifela kaup á þrifum með útlieigu þessara eigna. Leigugjaldið mun hækka sem því nemur en verðið verður auglýst síðar. Þetta mun tryggja að félagsmenn koma alltaf að íbúðunum hreinum.

Góð þátttaka

MATVÍS lagði könnum um orlofshús fyrir félagsmenn á dögunum. Frábær þátttaka var í könnuninni og niðurstöður um þessi tvö álitamál nokkuð skýrar. 37% félagsmanna tók þátt.

Stjórn félagsins þakkar þátttakendum kærlega fyrir þátttökuna og hlakkar til að sjá hvernig þessar nýju reglur munu reynast. Stjórnin þakkar þátttakendum jafnframt fyrir fjölmargar gagnlegar ábendingar sem bárust í svörum könnunarinnar. Vinna við að fara yfir þær og gera úrbætur þar sem það á við, er þegar hafin.