Dagana 26. – 28. september 2018 fara átta keppendur frá Íslandi til Búdapest í Ungverjalandi til að keppa á EuroSkills – evrópukeppni iðn- og verkgreina. Íslensku keppendurnir eru í trésmíði, grafískri miðlun, málmsuðu, rafvirkjun, rafeindavirkjun, bakstri, framreiðslu og matreiðslu. Undirbúningur hefur staðið yfir síðan í vor og nú er komið að keppninni. Keppendurnir voru valdir af hverri grein til að keppa fyrir Íslands hönd og hafa verið undir handleiðslu þjálfara sem fer með þeim á mótið.
Verkiðn – Skills Iceland er aðili að EuroSkills og hefur verið þátttakandi á vettvangi samtakanna og systursamtakanna WorldSkills frá árinu 2007. Í ár er fjöldi þátttakenda sá mesti sem farið hefur á EuroSkills og ríkir mikil eftirvænting í hópnum.
Dýrmæt reynsla að byggja á
„Á EuroSkills eru nemar í iðnnámi að koma fram fyrir Íslands hönd og keppa í sínum iðngreinum. Keppendum gefst þarna einstakt tækifæri til að bera sig saman við kollega sína um alla Evrópu og kynnast því að standa á stóra sviðinu. Markmiðið er ekki endilega að koma heim með verðlaunapening heldur mikið frekar að vera sér og sinni iðngrein til sóma. Koma heim með dýrmæta reynslu í farteskinu til að ná enn lengra í faginu,“ segir Georg Páll Skúlason, formaður Verkiðnar.
Fylgstu með íslensku keppendunum
Hægt verður að fylgjast með íslensku keppendunum á Facebook- og Instagramsíðum Verkiðnar: