Aftur þrengt að veitingamönnum

Fjöldatakmörkun, nálægðarmörk og grímunotkun er á meðal þeirra atriða sem kveðið er á um í reglugerð heilbrigðisráðherra vegna farsóttar sem tók gildi fyrir helgi. Reglugerðin gildir til 8. desember.

Með reglugerðinni er aftur þrengt að starfsemi veitingastaða. Skemmtistaðir, krár og spilasalir þar sem heimilaðar eru áfengar veitingar mega hafa opið til klukkan 23 alla daga vikunnar. Allir gestir skulu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri.

Í reglugerðinni er kveðið á um að vínveitingar skuli bera til sitjandi viðskiptavina og að allir gestir þurfi að hafa yfirgefið staðinn á miðnætti.

Fram kemur enn fremur að heimilt er að halda einkasamkvæmi á stöðum sem hafa vínveitingaleyfi lengur en til 23, að því gefnu að leyfið sé ekki nýtt eftir það, gestir séu skráðir og að þeir séu að hámarki 500 talsins.