Stífar æfingar fyrir Nor­rænu nema­keppnina í Ósló

„Norðmenn unnu þessa keppni síðast, þegar hún var haldin á Íslandi. Við ætlum að breyta því núna,“ segir Gabríel Kristinn Bjarnason, sem þjálfar keppendur Íslands í matreiðslu í Norrænu nemakeppninni sem fram fer í Ósló og hefst þann 20. apríl næstkomandi.

MATVÍS fylgdist með keppendum í matreiðslu og framreiðslu æfa sig í Hótel- og matvælaskólanum í Menntaskólanum í Kópavogi í morgun. Þeir tryggðu sér keppnisrétt með því að vinna íslensku nemakeppnina, sem IÐAN fræðslusetur stendur fyrir. Keppnin er hvoru tveggja einstaklingskeppni og liðakeppni, þar sem kokkar og þjónar vinna saman.

Þegar MATVÍS bar að garði í morgun voru keppendurnir í matreiðslu, þeir Hinrik Örn Halldórsson og Marteinn Rastrick, að búa sig undir óvissuhluta keppninnar. Fyrri daginn eiga þeir að búa til matseðil sem þeir hafa búið sig undir. Hann samanstendur af grænmetisréttir úr sellerírót, tveimur smáréttum (canabe) og kjúklingi. Loks eiga þeir að matreiða får i kål, þjóðarrétt Norðmanna.

Seinni daginn takast þeir á við „mystery basket“ eða óvissukörfu. Það þýðir að þeir fá að vita með korters fyrirvara hvað þeir eiga að matreiða. „Þeir þurfa svo að gera fjögurra rétta matseðil fyrir tólf manns og hafa til þess fimm klukkustundir,“ útskýrir Gabríel og bætir við að þá þurfi einfaldlega að æfa matreiðslu á alls kyns réttum með fjölbreyttum hráefnum – og vona að maður hitti á eitthvað sambærilegt við það sem keppnin býður upp á.

Frá vinstri: Gabríel (þjálfari), Marteinn og Hinrik Örn.

MATVÍS ræddi stuttlega við keppendur, sem voru í óða önn að matreiða sellerírót og sósu. „Ég er að undirbúa meðlæti fyrir aðalréttinn en hann er að gera sósu fyrir fyrsta kalda grænmetisréttinn,“ sagði Hinrik Örn á meðan hann skar saltbakaða sellerírót.

Hér má lesa sér til um nám í matreiðslu

Þeir viðurkenna að þeir séu spenntir fyrir verkefninu og að undirbúningurinn sé talsverður. „Þetta eru fjórar til fimm tímaæfingar og svo erum við oft hér í eldhúsinu eftir skóla að prófa okkur áfram með rétti – eins mikið og við getum. Síðustu vikurnar verðum við sennilega að undirbúa okkur á hverjum degi. Þetta er smá pressa,“ sagði Marteinn.

„Við erum með geggjað teymi í kring um okkur“

Í öðrum framreiðslusal Hótel- og veitingaskólans voru keppendur, þeir Benedikt Eysteinn Birnuson og Finnur Gauti Vilhelmsson, einnig djúpt sokknir í undirbúning. Þjálfari þeirra hafði þó brugðið sér frá, til að afla hráefna. „Við hittumst og æfum fyrir þessa keppni tvisvar í viku auk þess að spá og spekúlera í alla hluti,“ segir Benedikt íbygginn, spurður hvernig undirbúningi þeirra félaga sé háttað. „Ég er til dæmis með einhverja ostabók heima núna, sem ég er að lesa,“ segir hann og glottir og bæti við að þeir læri líka töluvert um vín.

Finnur Gauti er nýkrýndur sigurvegari á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fram fór í Laugardalshöll í síðustu viku. Þar varð Benedikt einmitt í öðru sæti. Það er því ljóst að Ísland mun eiga afar frambærilega fulltrúa í Norrænu nemakeppninni í Ósló. „Við erum með geggjað teymi í kring um okkur,“ segir Finnur Gauti og nefni Axel Árna Herbertsson þjálfara en auk þess munu þeir félagar hitta Manuel Schembri vínsérfræðing á Brút og ostasérfræðinginn Bjarka Long, svo dæmis séu tekin. „Það eru allir reiðubúnir að hjálpa okkur, svo við verðum sem best undirbúnir fyrir þessa keppni,“ segir Finnur.

Finnur Gauti og Benedikt urðu í tveimur efstu sætunum á Íslandsmóti iðngreina á dögunum.

Spurðir hvort þeir finni fyrir pressu að fara út sem fulltrúar Íslands í þessari keppni svarar finnur því játandi. „Það er alltaf smá pressa en þetta er fyrst og fremst mikil reynsla og gott fyrir starfsferilinn – þetta er gott fyrir ferilskrána,“ segir Finnur. Benedikt grípur orðið. „Þetta er líka frábær æfing fyrir sveinsprófið, sem við tökum í maí. Við förum beint í sveinspróf eftir keppnina.“

Benedikt, sem er á samningi hjá Matarkjallaranum, segir aðspurður að hann hafi óvart ákveðið að leggja þetta nám fyrir sig. „Ég var eitthvað að dunda mér í félagsfræði í FG en þurfti svo vinnu á meðan ég var í skóla. Ég fór að þjóna og í þeirri vinnu komst ég að því að þetta væri fag sem hægt væri að læra. Þá byrjaði ég að skoða þetta og hélt svo bara áfram,“ útskýrir hann.

Finnur Gauti, sem er á samningi hjá Vox brasserie, segir að hann hafi ekki fundið sig í hefðbundnu bóknámi. Systir hans sé matreiðslumeistari og hafi útskrifast úr matreiðslu úr skólanum árið 2019. Hún hafi sagt sér frá þessu námi. „Mér finnst bara svo gaman í vinnunni. Það er gaman að þjóna og ég nýt þess að spjalla við fólkið – svo ég ákvað bara að slá til,“ útskýrir hann.´

Hér má lesa sér til um nám í framreiðslu

Benedikt segir óhætt að segja að miklir möguleikar felst í því að mennta sig sem þjónn. „Ég var um tíma að vinna á einum veitingastað en vildi svo færa mig annað. Ég held ég hafi fengið átta tilboð daginn sem það spurðist út. Um leið og það fréttist þá höfðu margir samband við mig. Þetta sýnir bara að það vantar fagfólk í framreiðslu,“ segir hann að lokum.

Benedikt (t.v.) og Finnur Gauti verða glæsilegir fulltrúar Íslands í Norrænu nemakeppninni.