Aðalfundur IÐN-UNG, á föstudag: „Okkur finnst raddir unga fólksins vanta“

„Markmiðið með þessu er að huga að réttindum og hagsmunamálum ungs fólks í iðnaði,“ segir rafvirkinn Margrét Arnarsdóttir, ein af stofnendum IÐN-UNG,, hagsmunasamtaka fyrir ungt fólk í iðnaði.

IÐN-UNG, kynnti starfsemi sína og áherslur fyrir gestum á „Mín framtíð“ – Íslandsmóti iðn- og starfsgreina sem fram fór í Laugardalshöll í síðustu viku. Að IÐN-UNG, standa iðnfélögin sem staðsett eru á Stórhöfða 29-31; Rafiðnaðarsamband Íslands, Byggiðn – félag byggingamanna, Matvæla- og veitingafélag Íslands (MATVÍS), Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) Félag iðn- og tæknigreina (FIT).

Margrét segir að IÐN-UNG, hafi verið stofnað síðastliðið haust. „Við erum lítill hópur enn sem komið er en við höfum verið að tala við fólk og safna liði á þessar sýningu,“ segir hún. Aðalfundur félagsins verður haldinn föstudaginn 24. mars. Þar verður kosið í stjórn félagsins, auk annarra hefðbundinna aðalfundarstarfa. „Við verðum líka með Pub Quiz og hugmyndin er að hafa þetta svolítið létt og skemmtilegt,“ útskýrir hún.

Margrét bendir á að yfirleitt sé það eldra fólk – reynslumikið fólk á vinnumarkaði – sem mannar stjórnir og nefndir á vegum stéttarfélaganna. „Okkur finnst raddir unga fólksins vanta og því viljum við breyta. Við viljum ná til fólks sem er 35 ára og yngra og hefur kannski ekki keypt sér hús eða alið upp börn. Við viljum útskýra fyrir þessum hópi hvað stéttarfélögin eru og hvað þau geta bert fyrir okkur unga fólkið. Við stöndum í þeirri trú að ungt fólk sé betur til þess fallið að tala við ungt fólk – á mannamáli. Við viljum fara inn í framhaldsskólanna og byrja þar að kynna starfsemi fagfélaganna fyrir fólki sem er að læra þessar iðngreinar. Þetta þarf að byrja í skólunum,“ útskýrir hún.

Iðnaðarfólk vinnur oft samhliða á vinnustöðum að sögn Margrétar. Hún segir að þrátt fyrir að iðngreinarnar geti verið ólíkar eigi þessir hópar mjög margt sameiginlegt. Þau hafi séð tækifæri og styrk í að vinna saman að því að ná til ungs fólks. „Við þurfum að sýna þessum aldurshópi iðnaðarmanna og verðandi iðnaðarmanna hvað hann fer á mis við ef hann er ekki skráður í okkar félög.“ Hún tekur fram að ekki sé búið að fullmóta starf IÐN-UNG, en það verður á meðal verkefna kjörinnar stjórnar og annarra meðlima. „Við ætlum okkur að vinna þetta með skipulagðari hætti en áður hefur verið gert.“

Að sögn Margrétar gekk afar vel að ná til ungs fólks í Laugardalshöll. „Við erum strax komin með einhverjar viðbætur í okkar hóp – og það er fjölbreyttur hópur,“ segir hún.

Á meðfylgjandi mynd eru: Anna Kristín Semey Bjarnadóttir (málaranemi) úr FIT, Einar Sveinn Kristjánsson (vélstjóri), stjórnarmaður VM og Margrét Arnarsdóttir (rafvirki og múraranemi) úr Rafiðnaðarsambandi Íslands.

Aðalfundur á föstudag

Aðalfundur IÐN-UNG, hagsmunafélags ungs fólks í iðnaði, verður haldinn föstudaginn 24. mars kl. 18:00 á Stórhöfða 31, gengið inn Grafavogsmegin.

Dagskrá:
1. Opnunarræða formanns
2. Hefbundin aðalfundastörf
3. Önnur mál

Facebook-viðburður hefur verið stofnaður vegna fundarins hér.

Veitingar verða í boði.